Karl Pétur gerði sprenghlægileg mistök í gær: Áttaði sig þegar hann var kominn út á Keflavíkurflugvöll

Karl Pétur Jónsson, almannatengill og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, gerði eftirminnileg mistök í gær þegar hann fór út á Keflavíkurflugvöll í gær með dóttur sinni. Karl Pétur hélt að hann væri á leið til ítölsku borgarinnar Napólí í gær en annað kom á daginn.

Karl Pétur tilkynnti fylgjendum sínum á Facebook í hádeginu í gær að nú væri loksins komið að fermingarferð dóttur hans.

„Planið var að fara vorið 2019, þá fór WOW á hausinn, vorið 2020 þurfti í annað sinn að fresta og í þriðja sinn frestuðum við í vor,“ sagði Karl og birti mynd af sér og dóttur sinni brosandi á Keflavíkurflugvelli.

„En nú erum við á leið til Napólí í 8 daga,“ bætti Karl við.

Ekki löngu eftir að Facebook-statusinn birtist birti Karl Pétur annan status á Twitter-síðu sinni þar sem hann sagði frá mistökunum.

„Kominn til KEF með dóttur minni á leið í fermingarferð. Henti í spikfeitan FB status. Komst að því þegar um 120 manns voru búnin að óska okkur góðrar ferðar að flugið okkar til Napoli er á morgun. 14 ára dóttir mín er þolinmóðasta manneskja sem ég þekki.“

Twitter-færsla Karls vakti talsverða lukku á Twitter og fékk hann yfir sig nokkur skemmtileg skot. „Las statusinn þinn í gær og hugsaði í morgun þegar ég vaknaði. DJöfull væri ég til í að vera í hitanum í Napoli og blótaði þér. Svo ertu bara hér ennþá,“ segir í einni athugasemdinni.

Ekki náðist í Karl Pétur við vinnslu fréttarinnar en gera má ráð fyrir því að hann verði kominn til Napólí síðar í dag.