Karl minnist þess þegar Spaugstofumennirnir voru reknir frá Buckingham-höll

Karl minnist þess þegar Spaugstofumennirnir voru reknir frá Buckingham-höll

Fjölmargir Íslendingar hafa nú tjáð sig um sjónvarpsþættina Crown en meðal þeirra er leikarinn og leikstjórinn Karl Ágúst Úlfsson. Í færslu sem hann birtir á Facebook síðu sinni segir hann að umræðan um þættina hafi grafið upp gamlar minningar og greinir hann frá eftirminnanlegu atviki þegar Spaugstofumennirnir voru staddir í Lundúnum við tökur fyrir um það bil 30 árum.

Karl greinir frá því að hann hafði farið út til að velja tökustaði stuttu áður en þeir höfðu stuttan tíma í borginni til að taka upp tvö þætti. „Eitt atriðið í handriti gekk út á það að Kristján Ólafsson var á leið í te hjá sinni gömlu og góðu vinkonu Elísabetu Englandsdrottningu. Þar af leiðandi kom Buckinghamhöll við sögu og því valdi ég hana sem einn af fjölmörgum tökustöðum,“ segir Karl.

Þegar Spaugstofumennirnir voru komnir á torgið fyrir framan höllina og ætluðu að byrja að setja upp fyrir tökur kom upp að þeim breskur lögreglumaður. „Siggi var kominn í karakter, búinn að læra textann og klár í töku þegar bankað var á öxlina á einum okkar. Það var breskur lögregluþjónn, sem spurði kurteislega en ákveðið hver bæri ábyrgð á þessum hópi. Ég gaf mig fram og sagðist vera leikstjóri,“ minnist Karl.

Karl útskýrði þá fyrir lögreglumanninum hvað þeir væru að gera en þá bað lögregluþjónninn hann um leyfisbréf til að taka upp við höllina, sem hann hafði ekki. Hann hafi þá sagt við lögreglumanninn að íslenska sendiráðið hafi sagt að það væri örugglega í lagi en lögreglumaðurinn svarað með því að sendiráðið væri úti á þekju.

Eftir að hafa komist að því að Karl og félagar væru ekki með leyfisbréf bað lögreglumaðurinn þá um að pakka saman og koma sér burt. Þegar Karl reyndi að rökræða við lögreglumanninn tók hann eftir því að þolinmæði lögreglumannsins væri að renna út. „Þú heyrðir líklega ekki hvað ég sagði. Þegar ég bað um að þið kæmuð ykkur burt, þá var ég að meina núna. Ekki seinna. Ekki eftir tvær mínútur, heldur núna strax. Á stundinni,“ sagði lögreglumaðurinn.

„Ég ákvað að sleppa ræðunni sem ég var búinn að semja í höfðinu um það hvað þessi þáttur væri ofboðslega vinsæll heima á Íslandi. Við pökkuðum saman og fóru, en nokkrum mínútum síðar fundum við annan stólpa sem við límdum dyrasímann á og náðum skotinu. Svo tókum við til fótanna og forðuðum okkur af vettvangi.“

„Ég hélt að þarna hefði ég lent upp á kant við breska heimsveldið í fyrsta og síðasta sinn. Það reyndist ekki vera, því við Downingstræti 10 mátti engu muna að við værum fjarlægðir með handafli.“

Frásögn Karls í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.

Nú eru uppi ýmsar og háværar efasemdaraddir um sagnfræðilegt gildi þáttanna um bresku krúnuna, eða Crown, eins og hún...

Posted by Karl Ágúst Úlfsson on Mánudagur, 23. nóvember 2020