Kári vill endilega borga hærri skatt: „Mér þætti það sanngjarnt“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er þeirrar skoðunar að hann borgi of lítinn skatt. Kári er skattakóngur Kópavogs árið 2020 en það ár hafði hann 309 milljónir króna í fjármagnstekjur. Stundin greindi frá þessu í dag og ræddi við Kára.

„Ef það reynist rétt að ég hafi haft 300 milljónir króna í fjármagnstekjur á síðasta ári, hvernig í ósköpunum stendur á að ég er að borga einhvern 22 prósent skatt af því frekar en að borga af því eins og eðlilegt væri sem hvern annan tekjuskatt?,“ spyr Kári í viðtalinu.

Hann hefur haft í nógu að snúast síðastliðið eina og hálfa árið því auk þess að fást við kórónuveirufaraldurinn stýrir Kári Íslenskri erfðagreiningu sem er risastórt fyrirtæki. Bent er á það í Stundinni að ef fjármagnstekjur Kára hefur verið skattlagðar eins og launatekjur hefði hann greitt tæpar 142 milljónir króna í skatt í stað þeirra 68 milljóna sem hann greiddi í fjármagnstekjuskatt.

Kári er harður á því að menn eins og hann verði látnir borga meira til samfélagsins. Honum þætti það mjög sanngjarnt.

„Ég mögla yfir öllu, meira að segja því sem mér þykir sanngjarnt. En já, mér þætti það sanngjarnt. Við þurfum að auka samneyslu í íslensku samfélagi og til þess að fjármagna hana er eðlilegt að skattleggja þá sem eiga mikið í staðinn fyrir að auka samneysluna með því að skattleggja hina fátæku. Mér þykir það alveg gjörsamlega sjálfsagt og ég held að það hljóti að vera öllum ljóst.“

Viðtal Stundarinnar við Kára er í heild sinni hér.