Kári uppnefndi Brynjar í Kastljósi og kallaði hann Trump: Sagði hegðun hans mjög vafasama

Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar lét Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, finna fyrir því í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Kári var þar mættur til að ræða nýjustu vendingar í COVID-málum þjóðarinnar, meðal annars nýja reglugerð sem tekur gildi á miðnætti. Kári var einnig spurður út í það hvort hann væri sammála Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni sem hvatti fólk til að takmarka ferðalög til útlanda eins og frekast er unnt.

„Ég heyrði því fleygt að Brynjar Trump Níelsson hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekkert erindi til útlanda,“ sagði Kári sem bætti við að með því hafi Brynjar í raun rekið fingur framan í sóttvarnaryfirvöld.

„Sem mér finnst frekar vafasamt af kjörnum fulltrúa þjóðarinnar. Mér finnst það vera ruddaleg aðferð við að hundsa hagsmuni samfélagsins og tilraunir sóttvarnaryfirvalda til að hlúa að heilsu landsmanna. Mér finnst það mjög ljótt.“

Kári sagðist því vera sammála að takmarka ferðir um landamærin eins og við getum, flakk fram og til baka væri langt því frá æskilegt á þessum tímum.