Kári segir: Þessi bévítans veira smyglaði sér inn í landið bakdyramegin á meðan horft var til Alpanna

24. mars 2020
13:41
Fréttir & pistlar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem hefur ásamt sínu fólki í Íslenskri erfðagreiningu lagt sitt að mörkum til að halda veirunni í skefjum segir í samtali við vef RÚV að veiran hafi laumað sér bakdyramegin inn í landið. Í gær var greint frá því að 40 stökkbreytingar hefðu orðið á veirunni hér innanlands. Nú greinir Kári frá því að samkvæmt skimun hafi veiran komið í talsverðu magni með Íslendingum sem höfðu verið á flakki í Englandi. Það hafi gerst á sama tíma og heilbrigðisyfirvöld hafi horft til Íslendinga sem voru að koma heim eftir skíðaferðir í Ölpunum.

„Á meðan við vorum að einbeita okkur að halda í skefjum sýkingum sem komu þaðan þá var þessi bévítans veira að smygla sér inn í landið bakdyramegin. Hún kom töluvert frá löndum sem við vissum ekki að væri að bera mikið smit.“ 

Þá segir Kári einnig í samtali við RÚV um stökkbreytingarnar að dæmi sé um einstakling með tvær útgáfu af veirunni, eitt stökkbreytt, annað upprunalegt.

„Og síðan sjáum við að þeir sem hafa smitast frá þeim einstaklingi eru bara með stökkbreyttu veiruna sem gæti annað hvort verið af tilviljun einni saman eða að stökkbreytingin hefur gert þessa skepnu enn illvígari.“