Kallar Landsbankann „braskara allra landsmanna“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, vill að Landsbankinn selji fyrirhugaðar höfustöðvar sínar við Austurhöfn í Reykjavík og leggi andvirðið í ríkissjóð.

Hann gagnrýnir harðlega þau áform ríkisbankans að byggja 16.500 fermetra höfuðstöðvar fyrir um 12 milljarða króna á einni dýrustu lóð landsins.

„Á þeim tíma sem byggingaráformin hafa staðið hefur starfsmönnum bankans fækkað útibúum hefur verið lokað og dregið úr hefðbundinni bankaþjónustu samfara örum framförum í netþjónustu. Bygging nýrra höfuðstöðva er í hrópandi mótsögn við þá þróun,“ skrifar Þorsteinn í pistli sem birtist á Vísi undir titlinum „Braskari allra landsmanna.“

Þá furðar hann sig stærð húsakynnanna en bankinn fyrirhugar að leigja út um þriðjung byggingarinnar.

„Það liggur fyrir að nú og í nánustu framtíð verður mjög aukið framboð á skrifstofuhúsnæði til leigu í miðborg Reykjavíkur. Það virðist því misráðið af banka í eigu þjóðarinnar að ætla nú að hella sér út í leigubrask. Það er enda ekki eitt af meginverkefnum ríkisbanka að stunda útleigu fasteigna yfir höfuð.“

Þorsteinn segir eina svarið að selja nýbygginguna nú þegar hart er í ári fyrir ríkissjóð vegna heimsfaraldursins.

„Höfuðstöðvum bankans sem taka tillit til færra starfsfólks og aukinnar netvæðingar má koma fyrir á öðrum og hagkvæmari stað.“