Kallar eftir því að landsliðsmennirnir taki þátt í umræðunni

Guðrún Jónsdóttir, fyrrverandi talskona Stígamóta, segir að þagnarmúrinn hafi enn ekki verið rofinn í KSÍ málinu og kallar eftir því að landsliðsmennirnir taki þátt í umræðunni um ofbeldi sem hefur þrifist í þeirra hópi.

Hún segir að enn einn blaðamannafundur hjá knattspyrnusambandi hafi valdið aulahrolli hjá mörgum í gær og segir að þjálfari karlalandsliðsins, Arnar Þór Viðarsson, hafi þar komið fram grátklökkur og lýst því hversu erfið staðan sé fyrir landsliðsmennina.

„Hann talaði um drengina sem fórnarlömb pressu sem væri meiri en nokkurt annað lið í sögu knattspyrnunnar hefði þurft að þola. Þeir væru að fórna sér fyrir Ísland og væru að lifa sinn draum og svo væri bara ráðist að þeim. Hann fullyrti að allir væru þeir með hreinan skjöld, en að þeir þyrðu ekki að tjá sig af hræðslu við að segja eitthvað vitlaust. Ásakanirnar væru þeim mjög erfiðar. Landsliðsþjálfarinn hefur greinilega lítinn skilning á þeirri atburðarrás sem átt hefur sér stað undanfarið,“ segir Guðrún í færslu sem hún setti á Facebook í dag.

Hún segir að það sé alveg ljóst að ofbeldi sumra karlmanna varpi tortryggni á alla karlmenn.

„ Ofbeldi sumra landsliðsmanna gerir alla landsliðsmenn tortryggilega. Það hlýtur að vera alveg óþolandi óréttlæti. En ábyrgðin er ekki þeirra brotaþola sem segja frá ofbeldi, heldur ekki þeirra sem benda á óréttinn, heldur þeirra sem beita því,“ segir Guðrún sem segist þess vegna ekki skilja hvers vegna karlmenn séu ekki fremstir í flokki þeirra sem beiti sér gegn ofbeldismenningu.

„Hvers vegna landsliðsmenn halda ekki blaðamannafund og ræða einmitt það og ábyrgð hópsins á að líða ekki slíka hegðun. Landsliðsmenn skulda brotaþolum ofbeldis það að leggjast ekki í sjálfsvorkunn, heldur sýna þeim samkennd og skilning. Líka þjálfarinn þeirra. Við þurfum að heyra þá heita því að þeir ætli að læra af umræðunni og afhjúpununum og vanda sig og að samþykkja ekki slíka hegðun í sínum hópi. Þeir þurfa að játa það að þeir geti með engu móti fullyrt að allir séu þeir með hreinan skjöld. En að þeir geri sér grein fyrir því að ofbeldi hafi þrifist í þeirra hópi. Það væru svo gott að heyra þá lýsa sig reiðubúna til þess að taka þátt í umræðunni og leggja sitt af mörkum til þess að breyta menningunni,“ segir Guðrún og bætir því við að þannig myndu sannar þjóðhetjur bregðast við.

Fleiri fréttir