Kaldur raunveruleikinn ryðst inn

Leiðarljósið er að birta tvær manneskjur, búa til mannlegan prófíl af tveimur manneskjum sem eru með sama sjúkdóm en birtist á mjög ólíkan hátt“, segir Andri Snær Magnason um heimildarmyndarina Þriðji póllin sem hann vann ásamt Anní Ólafsdóttur.

Þriðji pólinn er íslenskt heimildar mynd og opnunarmynd RIFF kvikmyndahátíðar. Hún verður frumsýnd á morgun þegar hátíðin hefst þann 24.september.

Andri Snær og Anní mæta í þáttinn 21 á Hringbraut í kvöld, miðvikudag til Lindu Blöndal

Myndin segir sögu Högna Egils­sonar tón­listar­manns og Önnu Töru Edwards, hálf íslenskrar konu sem ólst upp í frum­skógum Nepal en þau eru bæði með geðhvörf. Myndin er alfarið tekin upp í Nepal.

„Myndin kom svolítið upp í hendurnar á okkur þegar Högni hringir í okkur með mjög stuttum fyrirvara og segir vera á leið til Nepal og hvort við vildum kvikmynda tónleika hans þar“, segir Andri Snær og þá var Högni á leið til Nepal að halda tónleika að ósk Önnu Töru sem vildi vitundarvakningu í Nepal um geðhvörf.

„Þegar Högni stígur fram með sín geðhvörf verður hann innblástur fyrir Önnu Töru sem er alin upp í frumskógum Nepal, til að stíga fram í Nepal, þetta er saga um óvæntar tengingar líka, einn gerir eitthvað á Íslandi og allt í einu er geðvakning í Nepal“, segir Andri snær ennfremur.

„Einhvers konar fiðrildaáhrif“, segir Anní.

Þetta er mynd um manneskjur með geðhvörf en ekki líffræðileg skýring eða læknisfræðileg á því segir Andri Snær „Þetta er ekki fræðslumynd um geðhvörf en við komumst að því hvað það er í gegnum myndina í gegnum þeirra frásögn“.

Anní og Andri Snær fóru tvisvar sinnum til Nepal við gerð myndarinnar sem tók um 4 ár að vinna.

Þau segjast ekki hafa gleymt sér í ævintýralegu umhverfi Nepals þar sem Anna Tara ólst upp í kringum tígrisdýr, fíla og nashyrninga og voru meðvituð að taka ekki upp einhvers konar túristamyndir heldur hafi þau verið með í ferðalagi þeirra Högna og Önnu Töru sem fengu að ráða ferðinni með hvað yrði notað að lokum í myndina.

Í myndinni eru björt andartök en áhorfandinn getur þó séð hversu alvarleg geðhvörf eru: „Allt í einu ryðst bara kaldur raunveruleikinn inn og að verkefnið sem við erum með í höndunum er grafalvarlegt og mikilvægt og upp á líf og dauða“, útskýrir Andri Snær en í myndinni eru frásagnir Högna frá tímabilum þegar hann var í hæstu hæðum - og stundum skondnar frásagnir en um leið átakanleg upplifun hans nánustu. Að sögn Andra Snæs og Anníar kynnumst við í myndinni líka örvæntingunni og skelfilegum tímum þegar Anna Tara er í maníu og eins þegar Högni er í djúpri lægð. Myndin sýnir hvernig geðhvörf eru ekki eins hjá tveimur einstaklingum með sama sjúkdöm, Högna og Önnu Töru, sem þó eiga það sammerkt að vilja ráðast á þann grimma óvin sem skömmin er hjá þeim lifa með geðhvörfum.

Þátturinn 21 hefst kl.21 og er svo endursýndur.