Kaldar kveðjur til launafólks

Tugþúsundir Íslendinga eru í einangrun og sóttkví að kröfu stjórnvalda. Þetta er hluti sóttvarnaráðstafana og fólk hefur ekkert val. Dómstólar hafa staðfest víðtæka heimild ríkisins til að skikka fólk í sóttkví og jafnvel halda því vikum saman í sóttkví undir vissum kringumstæðum.

Enginn velur að fara í sóttkví. Sóttkví er valdboð að ofan og á vitanlega að vera fyrirtækjum og launafólki að skaðlausu. Ríkinu ber að borga þeim sem eru í sóttkví laun.

Nú ber svo við að ágreiningur virðist uppi milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og verkalýðshreyfingarinnar hins vegar um það hvort draga eigi orlofsdaga af fólki fari slíkir dagar í sóttkví. Verkalýðshreyfingin ætlar vitanlega að láta reyna á þetta mál fyrir Félagsdómi.

Orlof er nokkuð sem launafólk hefur unnið sér inn en nú verður ekki betur séð en ríkið og sveitarfélög séu staðráðin í að hafa þennan rétt af vinnandi fólki.

Með miklum ólíkindum er að ráðherra vinnumarkaðar, sem er varaformaður Vinstri grænna, skuli segja það mjög eðlilegt að slíkur ágreiningur sé uppi og best sé að dómstólar úrskurði um slíkt.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir það dapurlegt að verkalýðshreyfingin kjósi að fara með málið fyrir Félagsdóm, sem er þó hinn rétti vettvangur fyrir slíkan ágreining á vinnumarkaði. Óneitanlega er dapurlegt að formaður samtaka sveitarfélaga skuli vera með slíkar yfirlýsingar þegar hreyfing launafólks fer löglegar leiðir til að láta reyna á rétt sinn

Ef fólk í orlofi veikist eru orlofsdagar ekki dregnir af því. Hví skyldi annað gilda um sóttkví sem launafólk hefur ekki meira yfir að segja en veikindum – sóttkví sem ríkið skikkar fólk í? Vitanlega á ríkið að greiða kostnað við launagreiðslur þeirra sem lenda í sóttkví. Fáránlegt er að fyrirtæki beri kostnað af því valdboði ríkisins og út í hött að ætla að velta þeim kostnaði yfir á launafólk og hafa af því sjálfsögð réttindi.

Kostnaður vegna sóttkvíar er í engu frábrugðinn kostnaði sem ríkið hefur greitt vegna annarra aðgerða svo sem hlutabótaleiðarinnar.

Ekki má gleyma því að mikil mismunun felst í sóttkví almennt þar sem ýmsar stéttir geta unnið að heiman í sóttkví á meðan aðrar stéttir geta það ekki. Embættismenn, fyrirtækjastjórnendur og sérfræðingar geta unnið heiman frá sér í sóttkví. Það getur verslunarfólk, verkafólk og sjómenn hins vegar ekki. Ekki heldur heilbrigðisstarfsfólk. Þetta fólk þarf að mæta á hverjum degi og standa sína pligt, annars molnar samfélagið undan okkur öllum.

Launafólkið sem stendur á gólfinu og afgreiðir í verslun, flakar fisk, keyrir strætó, þjónar á veitingahúsum eða sinnir sjúkum er framlínustarfsfólk sem fórnar sér á hverjum degi í háskalegu umhverfi á tímum heimsfaraldurs.

Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, segjast í orði kveðnu vera flokkur vinnandi fólks en varaformaður flokksins sér ekkert athugavert við að ríkið ráðist gegn helgum réttindum launafólks. Hann sér ekkert athugavert við að ríkið reyni að velta kostnaði af sóttvörnum yfir á launafólk.

Formaður samtaka sveitarfélaga, forystumanneskja í Sjálfstæðisflokknum, stærsta stjórnarflokknum, er á því að dapurlegt sé að launafólk taki til varna eftir löglegum leiðum þegar ríki og sveitarfélög brjóta gegn helgum rétti þess.

Kveðjurnar sem launafólk fær frá þessum tveimur ríkisstjórnarflokkum eru kaldar.

- Ólafur Arnarson