Jóni Viðari finnst skrýtið að það sé ekki meira talað um þetta

Íslendingar hafa aldrei verið óhamingjusamari og hafa síðustu tvö ár komið sérstaklega illa út í mælingum Landlæknis. Þetta er meðal þess sem kom fram í athyglisverðu viðtali Reykjavík síðdegis, sem birtist á vef Vísis, við Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra Lýðheilsu hjá embætti Landlæknis.

Málið varðar okkur öll og tók Jón Viðar Jónsson, hinn þekkti leikhúsgagnrýnandi, málið upp á Facebook-síðu sinni. Þar bendir hann á athyglisverðan punkt í viðtalinu við Dóru sem hann furðar sig á að sé ekki meira ræddur hér á landi.

„Nú er að koma í ljós, skv fréttum, að hrun er að verða í lífshamingju Íslendinga, skv könnun. Starfsmaður Landlæknis kennir að verulegu leyti um truflunum í samskiptum innan heimilis. Það er ugglaust rétt. Og svo segir starfsmaðurinn nokkuð sem mig hefur lengi langað til að segja og ég er í rauninni mjög undrandi að ekki skuli meira vera talað um,“ segir Jón Viðar og vísar í orð Dóru Guðrúnar í viðtalinu þar sem hún sagði:

„Svo verðum við að horfast í augu við símana og samfélagsmiðla. Það sem þarf til að eiga þessi djúpu og góðu samskipti er að það séu þagnir og stundir til að treysta sér til að tala um eitthvað mikilvægt. Þessar stundir eru fátíðari núna ef áreitið frá símanum er svo stanslaust. Við náum þannig ekki sömu dýpt í samskiptum. Það er tilgáta sem við viljum skoða betur."

Jón Viðar segir að lokum: „Einmitt - og reyna svo að fá fólk til að gera eitthvað í málunum!!“

Viðtali við Dóru má lesa í heild sinni hér og segir Jón Viðar að það sé svo sannarlega þess virði að lesa.