Jóni líst ekki á blikuna: 10,5% hækkun fasteignaverðs í ár

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir að ný spá hagfræðideildar Landsbankans sé sláandi. Í nýrri spá bankans er gert ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár.

Þá er gert ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans hækki hægt og rólega næstu misseri; þannig verði þeir 1,5% í árslok, 2,5% árið 2022 og 2,75% í lok árs 2023.

Jón Steindór viðraði þessar áhyggjur sínar í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

„Við þekkjum ástæðu hækkandi fasteignaverðs, ónóg uppbygging, vaxtalækkun og aukin eftirspurn nýrra kaupenda. Framboðsskorturinn er alltaf jafn undarlegur í ljósi þess að við vitum af komu nýrra stórra kynslóða á fasteignamarkað með áratuga fyrirvara,“ sagði hann og bætti við að nú væri hættan sú að nýir kaupendur neyðist til að spenna bogann of hátt til þess eins að komast inn á markaðinn.

„Vaxtahækkun, að viðbættri hækkun fasteignaverðs, þýðir að fyrir 40 milljóna króna fasteign þarf þarf að leggja út 800.000 krónur til viðbótar við það sem nú er og lánin af henni munu á tímabilinu verða 1,2 milljónum hærri.“

Jón Steindór segir að þetta þýði aukinn kostnað þeirra sem koma nýir inn á markaðinn upp á tvær milljónir króna á tveimur árum.

„Ég hef nefnt það hér í ræðustól áður að fasteignakaup á Íslandi í okkar krónuhagkerfi bera með sér öll merki áhættufjárfestingar og ég held að fréttir dagsins undirstriki það,“ sagði hann og ítrekaði það að búa þyrfti til betra umhverfi til framtíðar.

„Við verðum að tryggja næga uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði sem uppfyllir þarfir samfélagsins. Við verðum að bjóða fólki á fasteignamarkaði og á leigumarkaði fyrirsjáanleika þannig að það geti tekið ákvarðanir sem henta aðstæðum þess og þurfa ekki að kvíða vaxtasveiflum og ákvörðunum stjórnvalda.“