Jón Viðar: Hver er þessi maður? Vill ekki sjá styttu af Kanye West við Vestur­bæjar­laugina

„Hvernig er komið fyrir ís­lenskri æsku (og það í Vestur­bæ Reykja­víkur) sem sam­kvæmt sjón­varps­fréttum nú á sér þann draum stærstan að reisa hér styttu af ein­hverjum amerískum poppara,“ segir Jón Viðar Jóns­son, einn fremsti leik­hús­gagn­rýnandi þjóðarinnar.

Jón Viðar vísar til fréttar sem var í kvöld­frétta­tíma RÚV þess efnis að hátt í sex hundruð manns vilji að reist verði stytta af tón­listar­manninum Kanye West við Sund­laug Vestur­bæjar. Um er að ræða hug­mynd í hug­mynda­sam­keppninni Hverfið mitt, en borgin býður Reyk­víkingum að koma með hug­myndir um hvernig bæta megi hverfi borgarinnar á hverju ári.

Kanye West þarf ekki að kynna sér­stak­lega fyrir þeim sem fylgjast vel með tón­list, að minnsta kosti ekki ungu kyn­slóðinni, en hann hefur um ára­bil verið einn allra vin­sælasti tón­listar­maður heims og er listamaður fram í fingurgóma. Hann er kvæntur Kim Kar­dashian en á dögunum var greint frá því að hjónin væru að skilja. Hvað sem því líður er Kanye einn sá fremsti á sínu sviði og í upp­á­haldi hjá mörgum.

Ei­ríkur Búi Hall­dórs­son, verk­efna­stjóri hjá Reykja­víkur­borg, sagði í fréttum RÚV að nú tæki við úr­vinnslu- og sam­ráðs­ferli þar sem farið er yfir allar hug­myndir. Hann vill ekki úti­loka að styttan verði að veru­leika.

„Ég get ekki úti­lokað það núna en ég get heldur ekki lofað neinu. Það er margt í þessu og við eigum eftir að fara yfir allar hug­myndir,“ sagði hann.

Jón Viðar hristir hausinn yfir þessari hug­mynd og segist á Facebook-síðu sinni aldrei hafa heyrt á Kanye West nefndan – og kveðst hann ekki biðjast af­sökunar á því. „Og engin líkneskja til af Bubba eða Megasi, nú eða Gunnari Þórðar eða Ragga Bjarna? Hvað hefur farið úr­skeiðis í menningar­legu upp­eldi unga fólksins? Er þetta ekki toppurinn á ó­þjóð­leg­heitunum?“