Jón Viðar hristir hausinn: „Ég ætla ekki að gerast á­skrifandi að Stöð 2“

17. janúar 2021
21:30
Fréttir & pistlar

Jón Viðar Jóns­son, einn helsti leik­hús­gagn­rýnandi þjóðarinnar, segir að hann muni heldur sakna þess að sjá ekki oftar fréttir Stöðvar 2.

Eins og greint var frá í síðustu viku verða fréttir og frétta­tengdir þættir á Stöð 2 ekki lengur í opinni dag­skrá frá og með morgun­deginum. Má segja að með þessu sé blað brotið í ís­lenskri fjöl­miðla­sögu enda 34 ár síðan fréttir á Stöð 2 fóru í sam­keppni við sjón­varps­frétta­tíma RÚV.

Ó­hætt er að segja að þessi á­kvörðun for­svars­manna Stöðvar 2 hafi vakið at­hygli og hafa sumir sagt að þetta sé skref í því að loka frétta­stofunni. Jón Viðar segist lítið skilja í þessari á­kvörðun og hann ætlar ekki að kaupa sér á­skrift að Stöð 2 til að geta horft á fréttir.

„Ég mun svona heldur sakna þess að sjá ekki oftar fréttir Stöðvar 2. Og ég skil ekki þá hugsun sem liggur að baki þeirri lokun. Mér hefur skilist að aug­lýsinga­tekjur séu ekki nógu miklar, en að þær aukist eitt­hvað við þetta, því næ ég bara ekki. Hefði haldið að þetta myndi frekar virka öfugt; minnkað á­horf fæla frá aug­lýs­endur. Því hvað sem öðru líður er eitt á hreinu: ég ætla ekki að gerast á­skrifandi að Stöð 2, þrátt fyrir þessa breytingu. Svo mikil er ást mín á fréttum stöðvarinnar eða á­hugi á dag­skrá hennar ekki. Og ég hef grun um að svo sé um fleiri.“