Jón Viðar ekki hrifinn af Verbúð: „Þetta er auðvitað eintóm sápa“

Jón Viðar Jónsson, einn þekktasti leikhúsgagnrýnandi þjóðarinnar, skrifar gagnrýni á Facebook-síðu sína um þættina Verbúð sem sýndir eru á RÚV um þessar mundir.

Þættirnir hafa vakið mikla athygli og lof margra en þeir gerast á árunum 1983-1991 þegar kvótakerfið kom til sögunnar. Jón Viðar horfði á fyrstu fjóra þættina í einni beit og viðurkennir að þættirnir hafi runnið nokkuð þægilega niður. Hann virðist þó ekki vera neitt yfir sig hrifinn af þáttunum.

Jón Viðar segist ekki ætla að hafa neina skoðun á því hversu raunsönn mynd er dregin upp af verbúðarlífinu og innleiðingu kvótakerfisins enda nóg framboð af slíkum skoðunum á Facebook. Hann heldur svo áfram:

„Þetta er auðvitað eintóm sápa og hún ekki nema rétt í meðallagi, persónulýsingar flatar, samtölin yfirleitt stirð, stundum beinlínis hjákátleg og ekki nokkur minnsta dýpt í þeim en leikurum ætlað að bæta það upp með sínum leik og komast sumir dável frá því; ég nefni Góa, Jóa Sig, Kristínu Þóru, aðrir eru bara svona þokkalegir en ekkert mikið meir. Engin sérstök tilþrif í myndatöku og klippingu, en tónlistin nokkuð snyrtilega unnin,“ segir hann.

Jón Viðar segir í færslu sinni að erfitt sé að sjá hvaða stefnu „hin ennþá sundurlausa atburðarás“ ætlar að taka „en sem stendur sjást þess engin merki að sú samfélagsádeila sem þarna er fitjað upp á nái tengingu við aðra söguþræði sem lyppast áfram til hliðar við braskið og bisnissinn, s.s. framhjáhald og forræðisdeilur.“

Jón Viðar segir að nú þegar þáttaröðin sé hálfnuð sé varla hægt að tala um plott.

„Og kannski gerir það ekkert til, það er alltaf eitthvað æsilegt að gerast, slysfarir tíðar og dauðsföll, endalausar uppáferðir, berir rassar og brjóst; á því sviði hefur amk enginn kvóti verið settur á leikstjórann. Hvort hinn þrælkaði verbúðarlýður á eftir að gera uppreisn - ja það skyldi þó aldrei vera að hann endaði með því, en sem stendur er vart mikilla hluta að vænta af liðinu.“

Jón Viðar endar skrif sín á þessum orðum:

„Ég veit satt að segja ekki hvort ég endist til að horfa á þetta til enda. Það er svo mikið framboð af forvitnilegum seríum bæði á Netflix og Rúv-vefnum að maður vill helst ekki eyða miklum tíma í eitthvað sem er ekki merkilegra en þetta.“

Hann tekur þó fram að lokum að hann muni að líkindum horfa á fimmta þáttinn enda endaði fjórði þátturinn þannig að margir bíða spenntir eftir því hvað gerist næst.