Jón Magnús getur ekki setið á sér lengur: „Þetta er ekki búið. Þetta var aldrei búið“

Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum, segist ekki geta haldið aftur af sér lengur vegna umræðunnar um Covid-19 í íslensku samfélagi.

Um fátt annað var rætt en veiruna skæðu í fjölmiðlum lengi vel en eftir að yfirvöld náðu tökum á faraldrinum, samhliða bólusetningum og síður alvarlegum veikindum, hefur faraldurinn horfið úr umræðunni eins og dögg fyrir sólu. Jón Magnús hefur haft sig nokkuð í frammi í umræðunni um Covid-19 og hann gengur svo langt að segja að þessu sé ekki lokið og hafi raunar aldrei verið lokið.

Í morgun var greint frá því að smitum færi fjölgandi hér á landi og til marks um það eru um 150 til 200 manns að greinast á hverjum degi. Þá liggja 27 sjúklingar á Landspítalanum með Covid-19, þar af tveir á gjörgæsludeild.

„Mér hefur fundist samfélagsumræðan á Íslandi í kringum COVID-19 vera mjög óvenjuleg síðustu mánuði. Þrátt fyrir þá bláköldu staðreynd að heimsfaraldur COVID-19 endaði aldrei þróaðist umræðan á þann veg að maður átti helst ekkert að vera að tala um COVID-19. "Þetta er búið", "Þetta er eins og flensa", "Við þurfum ekki lengur að nota grímur",“ segir Jón Magnús í grein sem birtist á Facebook-síðunni Vísindi í íslenskum fjölmiðlum.

„Ég hef reynt að halda aftur af mér - ég vildi ekki vera gæinn sem gat ekki hætt að tala um COVID-19; ég get það ekki lengur. Að grímuskylda innan heilbrigðisstofnana hafi nokkurn tímann verið felld niður finnst mér óskiljanlegt. Það liggur fyrir að grímur virka til að minnka dreifingu, sérstaklega þegar sem flestir nota þær og ÁÐUR en veruleg dreifing er komin af stað. Enn fremur væri notkun KN95/FFP3 gríma sérstaklega á hááhættustöðum enn árangursríkara inngrip,“ segir Jón Magnús og bætir við að við höfum tækin og tólin til að fyrirbyggja veikindi og dauðsföll. Hann segir óásættanlegt að við höfum leyft okkur að nenna ekki að tala um Covid-19 lengur.

„Þetta er ekki búið. Þetta var aldrei búið. Höfum við gert ótrúlega hluti til að minnka skaða vegna COVID-19? Já, svo sannarlega. Staðan væri án nokkurs vafa margfalt verri án okkar bólusetningarstöðu. Hún væri margfalt verri án lyfja eins og nirmatrelvir/ritonavir. Hins vegar, að staðan sé orðin mun betri þýðir ekki að við eigum að hætta að bæta hana frekar.

Fjöldi þríbólusettra er áfram vel undir viðmiðunarmörkum. Sama má segja um fjölda bólusettra barna. Við getum gert mun betur.“