Jón Gnarr vill raf­knúnar vöru­flutninga­lestir: „Af hverju er ekki verið að ræða þetta?“

Jón Gnarr, fyrr­verandi borgar­stjóri í Reykja­vík, er tals­maður þess að taka upp notkun raf­knúinna vöru­flutninga­lesta hér á landi.

Jón segir í færslu á Twitter að slíkar lestir myndu draga stór­lega úr þunga­flutningum á þjóð­veginum sem er löngu sprunginn af á­lagi, auka um­ferðar­öryggi og draga úr loft­mengun. „Og ekki síst tryggja byggð um allt land til fram­tíðar. Af hverju er ekki verið að ræða þetta?,“ spyr Jón.

Nokkrar um­ræður hafa skapast undir færslunni og bendir einn á að start­kostnaðurinn væri svo hár að það myndi lík­lega aldrei borga sig. Annar bendir á að það þurfi milljóna­sam­fé­lag til að halda uppi lestum og teinum.

Þessi hug­mynd Jóns er langt því frá ný af nálinni. Hring­braut fann gamla þings­á­lyktunar­til­lögu þriggja þing­manna Fram­sóknar­flokksins frá árinu 1981 um raf­knúna járn­braut. „Ýmsir telja, að raf­knúin járn­braut sé ó­dýrasta og af­kasta­mesta flutninga­tækið, sem unnt sé að fá, þar sem hún hentar,“ sagði meðal annars í til­lögunni.

Þá, líkt og nú, virðist kostnaðurinn hafa verið allt of mikll. Hjör­leifur Gutt­orms­son, sem gegndi em­bætti iðnaðar­ráð­herra á þeim tíma þegar til­lagan var lögð fram, sagði í þing­ræðu:

„Sú stað­reynd, að flutningar á landi á Ís­landi eru til­tölu­lega litlir og mjög dreifðir, or­sakar að hér hentar mjög illa hið hefð­bundna raf­knúna sam­göngu­kerfi járn­brauta, spor­vagna og há­línu­vagna, sem er með mikinn stofn­kostnað á hvern km. Raunar er flutnings­þörfin víðast það lítil að hún stendur ekki fjár­hags­lega undir gerð varan­legra vega. Er­lendis er talið að járn­brautir geti ekki keppt við flutninga­bif­reiðar á skemmri vega­lengdum en 200--500 km. Á Ís­landi er nú engin járn­braut hugsan­leg sem mundi upp­fylla þær kröfur um flutninga­þörf og vega­lengdir sem eðli­legt er að gera.“