Johns Snorra verður minnst við Vífilsstaðavatn í kvöld

Vinir og vandamenn Johns Snorra Sigurjónssonar, sem saknað hefur verið í tæpan mánuð á næsthæsta fjalli heims, K2, ætla að hittast við Vífilsstaðavatn í kvöld klukkan 19:30 í þeim tilgangi að biðja og eiga samverustund.
Einar Bárðarson, almannatengill og vinur Johns Snorra, minnir á þetta á Facebook-síðu sinni. Bænastundin verður leidd af Jónu Hrönn Bolladóttur, sóknarpresti í Garðasókn, en eftir bænastundina stendur til að mynda hring um vatnið með höfuð- og vasaljósum.

„Þeir sem koma hafi verið hvattir til að vera með gönguljós eða vasaljós þar sem opin eldur er bannaður í friðlandinu. Þeir sem ætla að koma eru minntir á sóttvarnir og á bílastæðin við Vífilsstaði, Hjallastefnuskólann og GKG þannig að ekki verði nein óþarfa truflun á umferð.

Athöfnin er hugsuð sem einlæg samverustund hugsana og bæna til þessa ljósbera sem við söknum.“

Einar skrifaði afar fallegan texta um John Snorra eftir að greint var frá því að hans væri saknað. „John og Lína konan hans eru eitthvað magnaðasta fólk sem ég hef kynnst,“ sagði hann meðal annars.

Í kvöld kl 19:30 ætla vinir og vandamenn John Snorra Sigurjónssonar að hittast við Vífilstaðavatn í þeim tilgangi að...

Posted by Einar Bardarson on Þriðjudagur, 2. mars 2021