Jóhannes kominn aftur á stjá: „Þetta er siðleysi í hámarki“

„Þetta eru skýr skilaboð til okkar – bara éttu skít og drullu.“

Þetta segir eitt fórnarlamba Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar, sem í janúar var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot, í samtali við DV.

Í fréttinni er greint frá því að Jóhannes, sem stundum var kallaður stjörnumeðhöndlari, hafi opnað nýja meðferðarstöð sem kallast Útlaginn. Ef marka má heimasíðu Útlagans, sem hægt er að nálgast á slóð gömlu stofunnar, Postura.is, verður meðferðarstöðin eingöngu fyrir karlmenn.

Eins og að framan greinir var Jóhannes dæmdur í fimm ára fangelsi í janúarmánuði fyrir að nauðga fjórum konum. Hafði hann veitt konunum líkamsmeðhöndlun vegna stoðkerfisvandamála á árunum 2007 til 2017. Dómi héraðsdóms var áfrýjað og bíður hann nú niðurstöðu Landsréttar.

Kona sem Jóhannes braut gegn segir í samtali við DV að hún sé í raun orðlaus yfir því að hann hafi opnað nýja stofu.

„Þetta er siðleysi í hámarki og sýnir hversu mikil vanvirðingin er í garð fórnalamba hans og hversu sama honum er um skaðann sem hann hefur valdið,“ segir konan meðal annars.