Jakob kannaðist ekkert við hafa niðurlægt Hlyn í mötuneytinu: „Æi, góði besti. Fokkaðu þér“

Það kastaðist í kekki á milli Jakobs Bjarnar Grétarssonar, blaðamanns á Vísi, og Hlyns Hallgrímssonar, fyrrverandi útvarpsmanns, á Twitter eftir að Hlynur sakaði Jakob um að hafa niðurlægt sig í mötuneyti 365 miðla fyrir mörgum árum.

Jakob var til umræðu meðal meðlima Öfga þegar Hlynur bætti við í þá umræðu:

„Ahhh, Jakob Bjarnar. Sem reyndi að gera eitthvað niðurlægjandi standup atriði úr því fyrir fólkið í röðinni þegar kortinu mínu var hafnað í mötuneyti 365. Svo flottur gaur.“

Jakob kom að fjöllum og deildi með fylgjendum sínum á Twitter:

„Ekki oft sem mér er hrósað hér í holræsinu en hér er einhver maður sem ég þekki hvorki haus né sporð á sem talar um mig sem flottan gaur. Get ekki verið annað en ánægður með það. Takk.“

Hlynur var ekki sáttur:

„Æi, góði besti. Fokkaðu þér. Ég vann með þér á 365 - þar sem ég starfaði á útvarpssviði í sex ár frá 2008 til 2014. Ekki mér að kenna að þú sért bæði rasshaus OG ómannglöggur.“

Jakob skaut til baka:

„Jæja, gott að þú hafir fundið fjölina þína hér á Twitter eftir erfið ár sem veggjalús. Grjótharður við lyklaborðið. Vel gert og gangi þér vel í því, ég hef fulla trú á þér.“

Jakob ákvað svo að biðjast afsökunar:

„Minn ágæti Hlynur. Hafi ég sært þig á sínum tíma þarna í röðinni þá hefur það verið fyrir slysni, ekki ásetningi og ég vil biðja þig innilega afsökunar á því. Mér þykir það raunverulega leitt.“