Íslendingarnir þeir einu sem vilja ekki borga

Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefandi Árvakurs og einn eigenda Kersins í Grímsnesi, segir að almennt ríki mikil og góð sátt um gjaldtöku við þennan vinsæla ferðamannastað.

Mjög var deilt um þá ákvörðun árið 2013 að hefja gjaldtöku við Kerið og voru margir þeirrar skoðunar að það ætti að vera frítt að skoða undur íslenskrar náttúru. Svo er þó ekki og um nokkurra ára skeið hefur kostað 400 krónur að skoða Kerið.

Óskar er í viðtali í Dagmálum, streymisþætti á vef Morgunblaðsins, þar sem hann fer meðal annars yfir gjaldtökuna við Kerið.

Hann segir að ekki hafi staðið til að hefja gjaldtökuna þegar Óskar, í félagi við þá Ásgeir Bolla Kristinsson og bræðurna Jón og Sigurð Gísla Pálmason, keypti Kerið. Ásóknin hafi aukist jafnt og þétt og ekki hafi verið sætt á öðru en að hefja gjaldtöku. Tekjurnar hafi svo verið notaðar í uppbyggingu og endurbætur á svæðinu.

Óskar segir í viðtalinu að almennt ríki góð sátt um gjaldtökuna en þó sé alltaf einn og einn sem lætur ekki bjóða sér að þurfa að greiða aðgangseyri. Óskar segir að þar hafi ætíð verið um Íslendinga að ræða. Þó er einn Íslendingur sem þarf ekki að greiða aðgangseyri, en það er Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Ögmundur barðist hart gegn gjaldtöku í Kerinu og á fleiri ferðamannastöðum á sínum tíma.

„Ögmundur borgar ekki inn í Kerið í dag. Hann er eini maðurinn sem fær frítt og það vita það allir sem þar vinna en það er gert til þess að hann fái ekki tækifæri til þess að vera með uppistand og málflutning á staðnum.“