Ingi­björg Sól­rún frá Foss­hóteli: „Nú ætla ég að hætta mér út á hálan ís“

Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir, fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herra, er í sótt­kví á Foss­hóteli á Borgar­túni. Í Face­book færslu greinir hún frá þessu og segist jafn­framt ætla að hætta sér út á hálan ís og leggur orð í belg vegna um­ræðu um sótt­varnir á landa­mærunum.

„Jæja, nú ætla ég að hætta mér út á hálan ís og tjá mig um sótt­varnir á landa­mærum,“ skrifar Ingi­björg Sól­rún. Hún segir upp­haf­lega reglu­gerðina sem skikkaði alla á sótt­kvíar­hótel hafa verið fá­dæma klaufa­leg og ger­ræðis­leg.

„Laga­grunnur frelsis­sviptingarinnar var mjög veikur, ekkert til­lit var tekið til að­stæðna fólks, engin úti­vera leyfð og að auki var þol­endum frelsis­sviptingarinnar gert að greiða 50 þúsund krónur fyrir hana!“ skrifar Ingi­björg.

Hún bendir á að þetta hafi farið öfugt ofan í mjög marga sem eigi heimili hér á landi og töldu sig hafa góðar að­stæður til að fara í sótt­kví heima hjá sér.

„Og nú er spurningin þessi: Af hverju má ekki gera greinar­mun á ferða­mönnum og fólki með heimilis­festu á Ís­landi? Allir ferða­menn fari á sótt­kvíar­hótel og greiði sann­gjarnt gjald fyrir það - þeir þurfa hvort eð er að kaupa sér gistingu - en fólk með heimilis­festur á Ís­landi geti valdið um að vera í sótt­kví heima hjá sér, enda geti það sýnt fram á að það hafi góðar að­stæður til þess, eða fari ella á sótt­kvíar­hótel sér að kostnaðar­lausu.“

Hún segir að þetta gæti líka átt við um fólk sem þurfi að fara í sótt­kví meðan rakning á smiti stendur yfir. „Þannig verði litið á sótt­kvína sem þjónustu af hálfu yfir­valda og sam­fé­lags­á­byrgð af hálfu þegnanna en ekki dóm og refsingu. Datt þetta si svona í hug þar sem ég sit í sótt­kví við Katrínar­tún.“