Ingi­björg Sól­rún dreif sig til Ís­lands: „Eins og það væri stríðs­á­stand“

„En nú er ég komin heim, nýt þess að anda að mér fersku Vestur­bæjar­loftinu og vona að þetta á­stand vari ekki lengi,“ segir Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir, fyrr­verandi ráð­herra og nú­verandi for­stjóri Lýð­ræðis- og mann­réttinda­skrif­stofu ÖSE.

Ingi­björg Sól­rún greindi frá því í færslu á Face­book í gær­kvöldi að hún væri komin heim til Ís­lands. Að­eins sólar­hring áður, eða á föstu­dags­kvöldið, sat hún heima hjá sér í Var­sjá í Pól­landi þar sem hún rak augun í til­kynningu pólskra yfir­valda þess efnis að til stæði að loka landa­mærum Pól­lands frá og með mið­nætti í gær­kvöldi.

„Á sama tíma kom yfir­lýsing frá dönskum stjórn­völdum um að Dan­mörk myndi lokast frá há­degi. Ég var sem sagt í þann mund að verða inn­lyksa í Pól­landi og engin leið að vita hversu lengi það myndi vara,“ segir Ingi­björg.

Eðli málsins sam­kvæmt fannst henni þetta vond staða og bendir hún á að eigin­maður hennar, Hjör­leifur Svein­björns­son, og allt hennar fólk sé á Ís­landi. Þá hafi nær allt starfs­fólks Lýð­ræðis- og mann­réttinda­skrif­stofunnar verið komið í fjar­vinnu. Ís­lenska deildin, Ingi­björg og tveir aðrir starfs­menn, hafði því snör hand­tök og dreif sig af stað.

Þre­menningarnir flugu til Kaup­manna­hafnar með SAS klukkan sex í gær­morgun og þaðan á­fram til Ís­lands. „Ég henti úr ís­skápnum, pakkaði niður því nauð­syn­legasta og lagði í hann. Mér leið eins og það væri stríðs­á­stand,“ segir Ingi­björg sem er komin heim í Vestur­bæinn.

Utan­ríkis­ráðu­neytið beindi þeim til­mælum til Ís­lendinga í Pól­landi í gær að þeir færu land­leiðina til Þýska­lands eða annarra nær­liggjandi landa ef þeir vildu komast frá landinu. Al­mennings­sam­göngur í Pól­landi lögðust af á mið­nætti í gær­kvöldi sem þýðir að ekki er flogið frá landinu og þá liggja lestar­sam­göngur einnig niðri.