Inga telur einsýnt að Sigurður Ingi skylmist við Katrínu um forsætisráðherrastólinn

Formenn flokkanna tóku stöðuna í kjölfar kosningaúrslita í Silfrinu og Sprengisandi á RÚV og Stöð 2.

Þar sögðust Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson ætla að funda í dag. Þau séu opin fyrir áframhaldandi samstarfi eftir að ríkisstjórn hélt velli.

Hlutfall flokkana hefur þó breyst. Framsókn hefur bætt við sig fimm þingmönnum og Vinstri græn hefur tapað þremur en þar af sögðu tveir sig úr flokknum á nýliðnu kjörtímabili.

Fylgjendur Framsóknar hafa kallað eftir því að Sigurður Ingi taki við keflinu og taki sér sæti í forsætisráðherrastólnum í ljósi stórsigurs flokksins. Sigurður Ingi hefur ekki neitað því staðfastlega að hann sækist eftir sætinu en hefur þó lagt áherslu á samvinnu meðal stjórnarflokkanna.
„Eðlilegasti hlutur að við þrjú setjumst niður. Það er ekki sama hlutfall milli flokkanna og auðvitað hefur það áhrif. Við fundum leið síðast og það er eðlilegast að við gerum það aftur,“ sagði Sigurður Ingi í morgun.

Helstu stjórnmálafræðingar telja að Katrín verði áfram forsætisráðherra en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í Silfrinu í morgun að einsýnt væri að Sigurður Ingi muni skylmast við Katrínu um forsætisráðherrastólinn.