Inga Sæ­land ekki sátt: Ferða­menn borgi sjálfir fyrir sýna­tökuna - Hættunni boðið heim

„Þá er ljóst að nú á að flytja veiruna sem veldur CO­VID-19-sjúk­dómnum aftur til landsins. Það á að opna landa­mærin að öllu ó­breyttu 15. júní nk. Allt á að gera til að laða til okkar ferða­menn.“

Þetta segir Inga Sæ­land, þing­maður og for­maður Flokks fólksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag. Inga hefur látið tals­vert til sín taka í um­ræðum um CO­VID-19 far­aldurinn og var hún til dæmis á­berandi í um­ræðunni þegar veiran tók að dreifa sér um heims­byggðina. Kallaði Inga eftir því að landinu yrði lokað strax.

Inga telur að með því að opna landið á nýjan leik þann 15. júní næst­komandi séu Ís­lendingar að bjóða hættunni heim.

„Þrátt fyrir að við höfum öll lagst á árarnar í að­dáunar­verðri sam­stöðu í bar­áttunni gegn út­breiðslu veirunnar ætla stjórn­völd að taka á­hættuna á því að við lendum aftur á byrjunar­reit,“ segir hún.

Inga segir í raun ekki ó­eðli­legt að velta fyrir sér hve­nær rétti tíminn er til að opna fyrir flæði ferða­manna. Ís­land – líkt og aðrar þjóðir – sé að fara í gegnum djúpa efna­hags­lægð og ó­vissan sé al­gjör.

„Eitt er þó hafið yfir allan vafa: Veiran finnst varla í landinu lengur. Við höfum náð þakkar­verðum árangri í bar­áttunni gegn þessum ó­út­reiknan­lega ban­væna djöfli sem er að setja alla heims­byggðina á hliðina; – hefur sýkt hátt í sex milljónir manna og drepið um 360 þúsund.“

Inga veltir fyrir sér hvað hefði gerst ef við hefðum gripið til rót­tækra að­gerða tveimur til þremur vikum fyrr og tekið mark á þeim hörmungum sem sem aðrar þjóðir voru að ganga í gegnum.

„Jú, það hefði botn­frosið í ferða­manna­iðnaðinum og af­leiddum störfum út frá honum. Annað hefði gengið sinn vana­gang hér heima. Stjórn­völd hefðu gripið til efna­hags­björgunar­að­gerða. En þær hefðu kostað ís­lenska skatt­greið­endur tugum milljarða minna. Við hefðum ekki þurft að loka neinu. Eldri borgarar á hjúkrunar­heimilum og elli­heimilum hefðu ekki þurft að vera ein­angraðir frá ást­vinum sínum. Við værum ekki að greiða fúlgur fjár í ó­teljandi björgunar­að­gerðir til að reyna að halda fyrir­tækjum á floti sem ekki hefðu þurft að skerða þjónustu sína við okkur á nokkurn hátt.“

Inga segir að nú sé nóg komið.

„Það á þó ekki einungis að opna landið fyrir ferða­mönnum eftir rúman hálfan mánuð með allri þeirri á­hættu sem því fylgir. Sam­kvæmt á­ætlunum ríkis­stjórnarinnar eiga ís­lenskir skatt­greið­endur líka að greiða fyrir skimun á Co­vid fyrir þá alla. Kostnaður er á­ætlaður allt að 50.000 krónur fyrir hverja sýna­töku,“ segir Inga sem segir að Flokkur fólksins sé skýr í sinni af­stöðu.

„Ef landið skal opnað fyrir ferða­mönnum þá skulu þeir greiða fyrir komu sína sjálfir hvort sem rætt er um sýna­töku, sótt­kví eða annað uppi­hald. Gengi krónunnar er þeim mörgum veru­lega hag­stætt nú. Ís­lenskir skatt­píndir skatt­greið­endur hafa fengið meira en nóg.“