Illugi gerði könnun í heita pottinum í morgun: Meirihlutinn hló bara

Illugi Jökulsson, rithöfundur og dagskrárgerðarmaður, segist hafa gert „hávísindalega“ könnun í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni í morgun.

Illugi segir frá þessu í skemmtilegri færslu á Facebook-síðu sinni:

„Í gær gerði ríkisstjórn Íslands tilraun til að breiða yfir helstil lélegar ráðstafanir sínar með því að kynna um leið það fagnaðarerindi að 1. júlí yrðu öllum hömlum aflétt í samfélaginu. Ég gerði nú rétt áðan hávísindalega skoðanakönnun í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni um hvort fólk hefði fallið fyrir þessu.“

Illugi segir að 75 prósent úrtaksins hafi bara hlegið af þessari augljósu brellu stjórnarinnar. Þá hafi einn ágætur karl leitt hugann að hinum fornkveðna: „If you can't convince them, confuse them,“ meðan hann horfði á blaðamannafundinn í gær.

„25 prósent úrtaksins hafði hins vegar verið að ferðast austan úr Skaftafellssýslum í allan gærdag og misst af öllu saman,“ segir Illugi.

Stjórnvöld kynntu á blaðamannafundi ýmsar breytingar þegar kemur að því að hindra útbreiðslu COVID-19 hér á landi í gegnum landamærin. Meðal breytinganna er að nú verður heimilt að skylda farþega frá löndum þar sem nýgengi smita er mjög hátt, eða yfir þúsund á hverja hundrað þúsund íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Þá verði sóttkvíarhús meginreglan fyrir þá sem koma frá svæðum þar sem nýgengi smita er á bilinu 750 til 1000. Þá fær dómsmálaráðherra heimild til að leggja bann við „ónauðsynlegum ferðum“ frá hááhættusvæðum. Þá verða óbreyttar reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum til 1. júní næstkomandi að minnsta kosti.

Frekari upplýsingar má nálgast hér.