Illa farið með Guðrúnu Hafsteinsdóttur

Eitt af því sem vekur furðu við ráðherraval Sjálfstæðisflokksins er að gengið skuli fram hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur, fyrsta þingmanni Suðurkjördæmis, en henni mun hafa verið lofað ráðherrasæti þegar hún fór í framboð sl. vor. Helstu rökin fyrir framboði Guðrúnar voru þau að kjördæmið gæti ekki unað við að hafa ekki ráðherra og ljóst væri að Páli Magnússyni yrði aldrei treyst fyrir því, yrði flokkurinn í stjórn.

Guðrún hefur svarað fjölmiðlum á þá leið að hún sæktist eftir ráðherradómi og teldi fullkomlega eðlilegt að kjördæmi hennar hefði ráðherra, hana sjálfa. Þessi niðurstaða hlýtur því að vera áfall fyrir Guðrúnu og valda vonbrigðum og ólgu meðal sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.

Því er lofað að hún komi jafnvel inn á miðju kjörtímabili. Hins vegar er óvíst að þessi vinstri stjórn lifir svo lengi – með öllu er óvíst að sterkustu bakhjarlar Sjálfstæðisflokksins leyfi það. Málefni vinnumarkaðarins verða hrikalega erfið á næsta ári og geta hæglega fellt stjórnina, auk þess sem lítil ánægja er meðal stórútgerðarinnar yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa staðið fastur á því að ráða áfram ríkjum í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Nú hafa hvorki Suðurkjördæmi né Norðausturkjördæmi fulltrúa í fimm ráðherra hópi Sjálfstæðisflokksins. Tveir eru úr Reykjavík, tveir úr Kraganum og svo annar þingmaður Norðvesturkjördæmis, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem er löngu flutt í Kópavog. Sjálfstæðisflokkurinn sniðgengur landsbyggðina, rétt eins og Vinstri græn, sem velja sína þrjá ráðherra einungis af höfuðborgarsvæðinu.

Mikla furðu vekur einnig að Jón Gunnarsson, sem var í þriðja sæti á lista flokksins í Kraganum, skuli valinn í stöðu dómsmálaráðherra, með engan bakgrunn í lögfræði, á meðan oddvitar í tveimur kjördæmum eru utan ríkisstjórnar. Vandræðagangurinn í kringum Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur heldur áfram, engum til sóma.

Viðvaningsbragur er á stjórnarmyndun og ráðherravali formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann færði Vinstri grænum sjávarútvegs- og landbúnaðarmál á silfurfati gegn því að fá umhverfisráðuneytið og stefnir þar með sérhagsmunum sægreifanna, sem eru sterkustu bakhjarlar Sjálfstæðisflokksins, í hættu. Enn á ný skortir hann pólitísk klókindi.

- Ólafur Arnarson