Ole Anton Bieltvedt skrifar

Hvalirnir eru 310 milljarða króna virði; lifandi!

9. mars 2020
19:18
Fréttir & pistlar

IMF (International Monetary Fund), Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðurinn, vinnur ekki að­eins með beinum hætti að efna­hags- og gjald­eyris­málum, heldur beitir sjóðurinn sér líka - í um­fangs­miklum mæli - fyrir ýmiss konar rann­sóknum og greiningum á öðrum sviðum, sem hafa ó­bein en oft rík á­hrif á al­þjóð­leg efna­hags­mál.

IMF hefur varið miklum tíma og fjár­munum til að rann­saka lofts­lags­vána, enda trú­lega stærsta ein­staka vanda­málið og á­skorunin, sem við mann­kyninu blasir. Efna­hags­lega hliðin á þeim vanda er auð­vitað ham­fara­hlýnunin með þeim lofts­lags- og veðra­sviptingum - flóðum, þurrkum og fár­viðrum - sem henni fylgja.

Ný­lega gaf IMF út rann­sóknar­skýrslu um þetta efni með yfir­skriftinni ”Nature’s Solution to Climate Change”; lausn náttúrunnar sjálfrar á lofts­lags­vánni. Meðal annars leiðir rann­sóknin í ljós, að stór­hveli taka til sín og geyma í búknum að meðal­tali 33 tonn af CO2, sem jafn­gildir geymslu­þoli um 1.500 full­vaxinna trjáa á kol­efni.

Þegar dýrin deyja, sökkva þau niður á botn og taka kol­vetnið með sér, þar sem það geymist í ára­tugi og leysist svo upp.

Eins leiðir rann­sóknin í ljós, að næringar­ríkur úr­gangur hvala er aðal­fæða plöntu­svifsins í hafinu, sem aftur fram­leiðir um helming alls súr­efnis í loft­hjúpnum.

Fram­lag plöntu­svifsins í hafinu er jafn­gildi fjögurra Amazon-regn­skóga, hvað varðar kol­efnis­bindingu og lofts­lags­vernd. Amazon skógarnir eru þó oft kallaðir lungu jarðarinnar.

IMF reiknar út verð­gildi hvers stór­hvelis í þessu ljósi, en ljóst er, að bar­áttan við lofts­lags­mengunina mun kosta mikla fjár­muni. Sú stað­reynd, svo og mikið verð­gildi hvala fyrir náttúru, líf­ríki og upp­lifun ferða- og heima­manna, er tekið með í reikninginn.

Niður­staða IMF er, að hvert stór­hveli hafi verð­gildi upp á a.m.k. 2 milljónir Banda­ríkja­dala eða um 250 milljónir ísl. króna.

Ríkis­stjórn Katrínar Jakobs­dóttur, með Kristján Þór Júlíus­son í broddi fylkingar, leyfði á síðasta ári dráp á 1.045 lang­reyðum og 1.085 hrefnum á árunum 2019-2023.

Skv. ofan­greindu verð­mati IMF hafa lang­reyðarnar einar verð­gildi upp á 260 milljarða ísl. króna. Bæta má 50 milljörðum króna við vegna hrefnanna. Sam­tals 310 milljarðar króna.

Önnur hlið á þessum hval­veiði­kvóta ríkis­stjórnarinnar er sú stað­reynd, að til að bæta það tjón á lofts­lags­gæðum, sem dráp á 1.045 lang­reyðum myndi valda, þyrfti að rækta og byggja upp skóg 1,6 milljón trjáa. Hversu mörg tré skyldu vera á Ís­landi í dag?

Hér má einnig minna á, að Ís­land er eina land veraldar, sem leyfir og stundar dráp á stór­hveli, lang­reyði. Stundum er reynt, að rétt­læta þetta dráp með meintu af­ráni lang­reyðanna. Þetta er þó út í hött, því lang­reyðar eru skíðis­hvalir, sem éta engan fisk.

Í ljósi þess, að lang­reyða­veiðar Hvals hf hafa á þessari öld verið reknar með tapi - svo að ekki sé talað um það heiftar­lega dýra­níð, sem veiðarnar byggja á – að mestu dráps­að­ferðir og -tækni frá 1950 - og þá stór­felldu skemmd á í­mynd lands og þjóðar, sem veiðum fylgir - verður þessi leyfis­veiting ríkis­stjórnar Katrínar Jakobs­dóttur að flokkast undir for­kastan­lega gjörð, sem er þeim, sem að henni standa - og þar með, því miður, Ís­landi og Ís­lendingum öllum - til hneisu og van­sæmdar.

Menn geta líka spurt sig, hvernig gat æðsta mennta­stofnun landsins, Há­skóli Ís­lands, komizt að þeim niður­stöðum í hval­veiði­málum, sem fram koma í skýrslu Hag­fræði­stofnunar stofnunarinnar frá janúar 2018. Býr Há­skóli Ís­lands virki­lega ekki yfir meiri þekkingu – eru vísindi þar ekki á hærra stigi – eða réðu þar önnur sjónar­mið eða öfl för?

Nefna má, að grunn­upp­lýsingar um mikil­vægi hvala fyrir líf­ríkið og loft­hjúpinn hafa legið fyrir í um a.m.k. 5-10 ára skeið.

Það er við hæfi, að ljúka þessum pistli með til­vitnun í einn helzta snilling þjóðarinnar, Jóhannes S. Kjarval, sem elskaði hvali og sá og skildi mikil­vægi þeirra fyrir líf­ríkið og jörðina löngu á undan öðrum:

„Hið stóra hjarta heims­sálarinnar, hvalanna, sor­tjerar undir tón­bylgjum, sem mundu glatast þessum hnetti ef við högum okkur verr en ó­vitar” (Hvala­sagan (1956)).

Höfundur er stofnandi og for­maður Jarðar­vina.