Hundaeigendur til vandræða á hótelum

Stjórn félags ábyrgra hundaeigenda (FÁH) brýnir fyrir hundaeigendum að fara eftir settum reglum á hótelum og öðrum gististöðum á landinu.

„Við höfum fengið fregnir af nokkrum dæmum þar sem hundaeigendur hafa ekki verið að standa sig nógu vel að fara eftir reglum sem hótel- og gistiaðilar hafa sett sem skilyrði fyrir því að leyfa fjórfætlingunum að vera með okkur á gististöðum."

Þau segja þetta geta skemmt möguleikann fyrir fólki að taka hundana með á slíka staði nú þegar möguleikinn sé loksins að opnast.

„Við verðum að sýna tillitssemi og fara eftir reglunum svo að eigendur gististaða haldi áfram að bjóða okkur hundaeigendur velkomna með fjórfætlingunum okkar"

Stjórnin hvetur fólk til að kynna sér reglur hótelsins fyrir fram og láta vita af hundinum áður en mætt er á staðinn. Þá sé mikilvægt að hafa hundana í taumi á hótelsvæðinu.

„LOKSINS er hið landlæga „hundaofnæmi“ að víkja og hundar leyfðir á hótelum – við megum ekki klúðra þessu. Sýnum að hundaeigendur séu traustsins verðir," segir í tilkynningu frá FÁH.