Hringbraut endurvekur pólitíska umræðu

Pólitík með Páli Magnússyni hóf göngu sína á Hringbraut í gærkvöldi. Segja má að með þessum þáttum endurveki Hringbraut umræðu um pólitík hér á landi. Annar viðmælandi Páls í þættinum, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafði á orði að hann vonaðist til að stjórnmálaurmæða hæfist að nýju í aðdraganda kosnina en undanfarin misseri hefði nákvæmlega engin stjórnmálaumræða farið fram hér á landi. Í stað hennar hefði umræðan snúist um Covid og sóttvarnir.
Og það hentar líkast til Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, hinum viðmælanda Páls í gær, alveg prýðilega að umræðan snúist um farsóttina. Í pólitískri umræðu á Katrín í vök að verjast þótt almenn samstaða hafi ríkt um viðbrögð gegn Covid, bæði varðar sóttvarnir og viðnámsaðgerðir til að sporna gegn efnahagshruni af völdum farsóttarinnar.
Forsætisráðherra, sem enn á ný lýsti ánægju sinni með ríkisstjórnarsamstarfið og málefnasamstöðu ríkisstjórnarinnar í þættinum í gærkvöldi, er í vörn í pólitískri umræðu – aðallega innan eigin flokks – vegna þess að hvað sem líður fagurgala hennar um árangursríkt stjórnarsamstarf er útkoman sú að ekkert af stóru málum hennar flokks varð að veruleika á kjörtímabilinu. Málefnalegur árangur varð enginn.
Ekki var það stjórnarandstaðan sem brá fæti fyrir mál Vinstri grænna í þessari ríkisstjórn heldur samstarfsflokkarnir og þó aðallega Sjálfstæðisflokkurinn. Hálendisþjóðgarðurinn, sem var stóra málið og skýrt kveðið á um í stjórnarsáttmála, rann út í sandinn vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Breytingar á stjórnarskrá með aðaláherslu á auðlindagjald, mál sem var sérstaklega á forræði forsætisráðherra, gufuðu upp vegna andstöðu samstarfsflokkanna. Stjórnarandstaðan bauðst til að aðstoða við að koma því máli í gegn en samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn hleyptu því ekki á dagskrá.
Yfir 70 prósent kjósenda Vinstri grænna hafna áframhaldandi stjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokk og Framsókn en forsætisráðherra og formaður VG er opin fyrir áframhaldandi ríkisstjórn þessara flokka og segir málefnin ráða för! Í raun má segja að eini árangur VG á þessu kjörtímabili felist í því að hafa tryggt formanni sínum forsætisráðuneytið og tveimur flokksfélögum að auki ráðherrastól og bíl með bílstjóra. Eflaust má þarna bæta við einhverjum bitlingum til flokksgæðinga sem aðeins flokkar í ríkisstjórn geta úthlutað, t.d. stjórnarformennsku hjá Íslandspósti.
Páll Magnússon er einn allra reyndasti sjónvarpsmaður landsins og það er rós í hnappagat Hringbrautar að hafa fengið hann til starfa. Ekki aðeins býr Páll að áratuga reynslu af skjánum heldur hefur hann undanfarin ár verið þungavigtarmaður á Alþingi, formaður í lykilþingnefndum. Þeir sem fylgjast með alvöru sjónvarpsstöðvum vestan hafs þekkja að helstu þáttastjórnendur og stjórnmálaskýrendur þar eru gjarnan reynsluboltar úr pólitíkinni. Sem dæmi má nefna að ein aðalstjarna pólitískrar umræðu á ABC-sjónvarpsstöðinni er George Stephanopolous, sem á sínum tíma var hægri hönd Bills Clintons bandaríkjaforseta.
Páll sýndi í gær að hann hefur engu gleymt og loks var rætt aftur um pólitík í íslenskum fjölmiðli. Covid gnæfði ekki yfir öllu og umræða um heilbrigðismál kom inn á stefnumörkun almennt. Forsætisráðherra reyndi að eyða talinu þegar spurt var um hvernig á því stendur að íslenska ríkið borgar fyrir aðgerðir á Íslendingum á einkastofum í Svíþjóð á sama tíma og það harðneitar að greiða fyrir sömu aðgerðir á einkastofum á Íslandi – þrátt fyrir að aðgerðirnar á Íslandi kosti ríkissjóð ekki nema 1/3 þess sem aðgerðirnar í Svíþjóð kosta?
Forsætisráðherra reyndi líka að gera lítið úr því að hennar eigið ráðuneyti hefur þanist út á hennar vakt og þetta fyrrum litla ráðuneyti er nú búið að sprengja svo utan af sér húsnæði sitt að til stendur að reisa kassalaga ferlíki á baklóð stjórnarráðshússins sem viðbyggingu til að hýsa allt nýja starfsfólkið.
Það er fagnaðarefni að loks skuli aftur vera rætt um pólitík á Íslandi, stefnumál til framtíðar en ekki aðeins nýjustu tilkynninguna um ráðstafnir vegna Covid eða þá næstu. Hafi Hringbraut þökk fyrir að hefja kosningabaráttuna og endurvekja stjórnmálaumræðu.
- Ólafur Arnarson