Hriktir í stoðum meiri­hlutans í Kópa­vogi: Er Ár­mann að hætta?

„Ár­mann Kr. Ólafs­son, bæjar­stjóri Kópa­vogs­bæjar, hyggst ekki gefa kost á sér fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn á næsta kjör­tíma­bili, en kosningar verða árið 2022. Um þetta er nú rætt í her­búðum Sjálf­stæðis­flokksins, þar sem leitin að mögu­legum arf­taka er þegar hafin.“

Þannig hefst frá­sögn sem er að finna undir liðnum Orðið á Götunni á Eyjunni, einni af undir­síðum DV. Þar er gert að því skóna að að Ár­mann vilji taka sér hvíld frá bæjar­pólitíkinni eftir að hafa staðið í ströngu allt frá árinu 1998 er hann var kosinn bæjar­full­trúi þeirra Sjálf­stæðis­manna. Sam­kvæmt heimildum Hring­brautar hriktir nú í stoðum meiri­hlutans og hefur gert síðustu vikur.

Ár­mann ungur í Sjálf­stæðis­flokknum

Ár­mann hefur verið bæjar­stjóri frá árinu 2012, fyrst í meiri­hluta­sam­starfi Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar­flokks og Y-lista til ársins 2014, þá með Bjartri fram­tíð árin 2014-2018 og loks með Fram­sóknar­flokki frá 2018.

Ár­mann var strax við­loðandi Sjálf­stæðis­flokkinn á sínum yngri árum, en hann sat bæði í stjórn og fram­kvæmda­stjórn Ungra Sjálf­stæðis­manna. Einnig var hann að­stoðar­maður Hall­dórs Blön­dal í sam­göngu­ráðu­neytinu á árunum 1995 til 1999 en færði sig í kjöl­farið yfir til sjávar­út­vegs­ráðu­neytisins þar sem hann var Árna M. Mathiesen til halds og trausts til ársins 2005 og fylgdi honum yfir í fjár­mála­ráðu­neytið. Ár­mann sat einnig á þingi fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn á hrunárunum 2007 til 2009.

Á Eyjunni er vitnað í ævi­sögu Gunnars Birgis­sonar, fyrr­verandi bæjar­stjóra í Kópa­vogi, þar sem hann tjáði sig um kynni sín af Ár­manni. Á Eyjunni segir:

„Fyrst hafi allt gengið vel, en síðan hafi borið skugga á sam­bandið vegna trúnaðar­brests og svo vin­slit fylgt í kjöl­far próf­kjörs Sjálf­stæðis­manna 2010, sem Ár­mann vann og Gunnar varð þriðji. Segir Gunnar aldrei fyrir­gefa Ár­manni trúnaðar­brestinn.

Gunnar segir að Ár­mann til­heyri á­kveðinni klíku innan Sjálf­stæðis­flokksins, sem hann kallar gang­sterana, sem stjórnað er af Guð­laugi Þór Þórðar­syni, utan­ríkis­ráð­herra. Það sé ekkert leyndar­mál að mark­mið klíkunnar sé að taka yfir Sjálf­stæðis­flokkinn:

„Þetta eru miskunnar­lausir menn og það yrði skelfi­legt fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn næðu þeir að taka hann yfir. Koma þarf í veg fyrir það með öllum til­tækum ráðum. Vinnu­brögðin minna einna helst á Óskars­verð­launa­myndina frægu, Guð­föðurinn. Gulli er Don Cor­leone og hinir verða að sverja honum hollustu sína.“

Gunnari Birgis­syni fannst fram­koman í sinn garð eftir próf­kjörið 2010, vera fyrir neðan allar hellur. Taldi Gunnar að það mætti allt rekja til þess að hann hefði á­kveðið að styðja Björn Bjarna­son í próf­kjöri fyrir borgar­stjórnar­kosningar 2003. Gunnar heldur fram að Guð­laugur Þór hafi á­kveðið að hefna fyrir þetta. Á Eyjunni segir:

„Gunnar segir einnig að Gulli „sjái um sína,“ og hafi ráðið vini sína og já-bræður í alls kyns verk­efni í tíð sinni sem heil­brigðis­ráð­herra. Þá tekur hann fram að fylgjast þurfi með Guð­laugi nú þegar hann sé aftur orðinn ráð­herra.“

Á Eyjunni er því velt upp hvort að Ár­mann endi nú í utan­ríkis­ráðu­neytinu hjá Guð­laugi Þór Þórðar­syni utan­ríkis­ráð­herra. Sam­kvæmt heimildum Hring­brautar er það rétt sem fram kemur á Eyjunni að vitað er að mikill á­greiningur hefur átt sér stað innan meiri­hlutans síðustu vikur. Þann á­greining má rekja allt aftur til síðustu kosninga er Ár­mann myndaði með ó­bragð í munni stjórn með Fram­sóknar­flokknum, svo nú hriktir í stoðum meiri­hlutans. En fjallað verður ítar­lega um á­tökin í Kópa­vogi á Hring­braut síðar í vikunni.