Hrært í pottinum vegna Samherja-málsins

Í nýútkomnu tölublaði Stundarinnar birtast 22 blaðsíður um Samherja-málið sem hefur verið á dagskrá síðastliðin fjögur ár án þess að hafa verið leitt til lykta með nokkrum hætti. Fyrirsvarsmenn Samherja hafa verið bornir þungum sökum, einkum af tilteknum fjölmiðlum eins og Stundinni og ríkisútvarpinu. Sumt hafa þeir kallað yfir sig sjálfir. Enginn hefur hins vegar verið ákærður í málinu, hvað þá sakfelldur. Engu að síður hafa Stundin og ríkismiðillinn fjallað ítrekað um málið án þess að nokkuð nýtt eða fréttnæmt hafi komið fram. Umfjöllun Stundarinnar að þessu sinni er engin undantekning frá því. Fátt nýtt bætist við. Einungis er hrært í sama pottinum og það á 22 blaðsíðum.

Hér skal ekki lagður neinn dómur á þetta mál sem hefur verið fyrirferðarmikið í umfjöllun fjölmiðla á liðnum árum, einkum sumra fjölmiðla sem virðast raunar leggja ofurkapp á þetta mál. Umfjöllun þeirra ber óneitanlega stundum meiri keim af málflutningi en fréttaflutningi. Mögulega skýra yfirgengileg viðbrögð fyrirsvarsmanna, starfsmanna og sumra ráðgjafa Samherja við fréttaflutningi af framferði Samherja í Namibíu að einhverju leyti hið mikla kapp sem sumum fréttamönnum RÚV og Stundarinnar hefur hlaupið í kinn. Ekki hefur umdeild meðhöndlun lögreglunnar á Norðausturlandi á málinu heldur orðið til að lægja öldur.

Stundin er einkarekinn fjölmiðill sem getur markað sér stefnu, valið sér verkefni og nálgun á þau eftir því sem forsvarsmenn miðilsins ákveða. Þær ákvarðanir getur enginn enginn tekið fyrir þá. Við því er lítið að segja. Um ríkismiðilinn gildir talsvert annað. Ríkisútvarpið er í eigu þjóðarinnar og um starfsemi þess gilda ákveðnar og skýrar reglur þar sem þess er krafist að gætt sé sanngirni og faglegra vinnubragða. Störf ríkismiðilsins þurfa að vera hafin yfir málefnalega gagnrýni enda þiggur þessi stofnun fimm til sex milljarða króna úr ríkissjóði af skattpeningum fólksins í landinu á hverju ári. Með taumlausum fjárveitingum úr ríkissjóði verður að gera enn ríkari kröfur til ríkismiðilsins um heiðarleg vinnubrögð, faglega nálgun og sanngjarna umfjöllun. Eðlilegt er að gera kröfu um að fréttaflutningur sé í þágu almennings.

Almenningur hér á landi, fólkið sem er skikkað til að greiða fyrir rekstur ríkismiðilsins, á þá réttmætu kröfu á RÚV að það leggist ekki niður á sama plan og götumiðlar sem láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Víðast hvar í Evrópu eru ríkisljósvakamiðlar sem skattgreiðendur eru skikkaðir til að leggja til fé með einum eða öðrum hætti. Hvergi annars staðar tíðkast það þó, sem látið er viðgangast hér á landi, að ríkismiðlar fái jafnframt að leika lausum hala á auglýsingamarkaði.

Hvergi annars staðar kæmi til greina að fréttastofa ríkismiðla tæki upp vinnubrögð gulu pressunar, líkt og ríkismiðillinn hefur gert hér á landi. Ýmsar aðferðir Samherja í þessu máli eru að sönnu umdeildar. Íslenskir dómstólar munu eiga síðasta orðið, bæði hvað varðar málefni Samherja og eins vegna ásakanna á hendur frétta- og blaðamönnum.

Íslenskt dómskerfi þarf að vanda sig í þessum viðkvæmu málum þannig að enginn þurfi að leita réttar síns hjá Mannréttindadómstól Evrópu eins og því miður hefur verið allt of algengt á seinni árum. Allt of mörg dæmi eru um að alþingi götunnar hafi fengið að ráða för þar til aðilar hafa náð að rétta hlut sinn í Strassborg eftir að hafa orðið fyrir miklum skaða. Slíkt verður aldrei bætt og grefur undan trausti á íslenska dómskerfinu.

- Ólafur Arnarson