Hjarta Helgu brotnaði í sund­klefanum þegar hún heyrði sam­tal 11 ára stúlkna

13. janúar 2021
12:40
Fréttir & pistlar

„Hjartað mitt brotnaði í 1000 mola í dag í sund­klefanum þegar ég heyrði tvær 11 ára stelpur ræða sín á milli hvernig þær myndu sko breyta öllu við sig með að­gerðum ef þær gætu,“ segir ung kona, Helga að nafni, í Twitter-færslu sem vakið hefur mikla at­hygli.

Helga bætir við: „Getum við plís frætt ung­lingana okkar um ó­raun­hæfar staðal­í­myndir og mikil­vægi sterkrar sjálfs­myndar.“

Margir hafa deilt færslunni og þá taka margir undir með henni í at­huga­semdum undir.

„Sá síðast fyrir 3 mínútum aug­lýsingu í sjón­varpinu um þátt sem verður um mann­eskju sem er á leið í að­gerð til að breyta út­litinu. Vissu­lega maga­ermi, en samt í sjón­varpi á prime time eins og ekkert sé eðli­legra en að demba sér í að­gerð. Svo eru insta-stjörnurnar ekki að hjálpa,“ segir ein.

Þetta er ekki eina færslan hér á landi um svipað mál­efni sem vakið hefur at­hygli hér á landi síðast­liðinn sólar­hring. Ein kona lýsti sam­tali ungra vin­kvenna í sund­laug í Hafnar­firði í einni til­tekinni hverfis­grúppu í gærkvöldi.

,,Mömmu er farið að gruna að ég sé ekki að borða” .. heyrði ég eina 13/14ára segja við vin­konur sínar tvær,“ sagði konan sem lýsti sam­talinu frekar. „Önnur vin­konan ansaði ,,ég er ekkert að svelta mig ég er bara oft ekki svöng” og sú þriðja (tág­grönn) sagðist ætla samt kannski að fá sér há­degis­mat á morgun ef það væri vegan í boði.“

Konan bætti við að nauð­syn­legt sé að fræða börn um næringu og besta leiðin til að grennast sé að borða oft, borða hollt, borða í hófi og stunda hreyfingu.

Vert er að vekja at­hygli á vef Sam­taka um líkams­virðingu en á vefnum kemur fram að slæm líkams­í­mynd sé nokkuð al­geng meðal ungs fólks, sér­stak­lega kvenna. „Rann­sóknir sýna að þær fyrir­myndir sem börn og ung­lingar hafa t.d úr teikni­myndum, tón­listar­mynd­böndum og Insta­gram geta haft mikil á­hrif á þróun líkams­myndar og líðan,“ segir á vefnum sem hægt er að kynna sér frekar hér.