Hin margrómaða Narfeyrarstofa í Stykkishólmi föl

Veitingahjónin Steinunn Helgadóttir veitinga- og framkvæmdastjóri og Sæþór Þorbergsson matreiðslumeistari hafa sett veitingahús sitt Narfeyrarstofu í Stykkishólmi á sölu en veitingahúsið er eitt af glæsilegri og farsælli veitingahúsum á Vesturlandi og tekið hefur verið eftir. Hjónin eru búin að eiga og reka hið margrómaða veitingahús samfleytt í 20 ár og staðurinn blómstrar sem aldrei fyrr. Narfeyrarstofa er við Aðalgötu í Stykkishólmi í hjarta bæjarins í einstöku húsi sem á sér mikla sögu. Narfeyrarstofa er rómuð fyrir vandaða og gæðamikla matargerð sem er unnin frá grunni af matreiðslufólkinu á Narfeyrarstofu, þar sem ástríðan og natnin ræður för.

FBL Narfeyrarstofa húsið .jpeg

Narfeyrarstofa er í einstaklega fallegu og reisulegu húsi í hjarta bæjarins og á sér mikla sögu./Ljósmyndir aðsendar.

„Við höfum mikinn áhuga á mat og matarmenningu ásamt hönnun en við hönnuðum sjálf Narfeyrarstofu eins og hún er í dag,“segir Steinunn og hefur lagt mikla ástríðu í hönnun staðarins. Öll borð, stólar og fastir bekkir voru endurnýjaðir fyrir þremur árum síðan á mjög vandaðan og rómantískan hátt í takt við aldur hússins. Bekkir og allir stólar voru sérsmíðaðir hjá GÁ húsgögnum og eru því íslenskt handverk. Einnig voru öll ljós í sölum á efri og neðri hæð endurnýjuð og hugað að lýsingunni af fagmennsku. Ljósin eru frá versluninni Epal og mynda fallega heildarmynd af útliti staðarins.

Narfeyrarstofa nýir bekkir og stólar - íslensk hönnun

Húsið er byggt árið 1906 og er á þremur hæðum með viðbyggingu, samtals 234 fermetrar. Í gamla daga í Stykkishólmi báru húsin ekki götuheiti heldur hétu nöfnum og voru þá oft kennd við eigendur eða einhver kennileiti. Húsið heitir Narfeyrarhús og er kennt við Guðmund sem kemur frá Narfeyri á Skógarstönd og byggði húsið fyrir Málfríði Möller, ekkju Möllers apótekara. Þegar fyrrverandi eigandi hússins opnaði kaffihús efndi hann til nafnasamkeppni og þar varð nafnið Narfeyrarstofa til.

Aðalsmerki Narfeyrarstofu er að nýta allt það úrvals hráefni sem umhverfið og nærsveitin hefur upp á að bjóða. „Við búum við matarkistu Íslands. Breiðafjörðurinn gefur alveg einstakt hráefni, eins og hörpuskel, bláskel, sjófugl og egg,“segir Steinunn og að þau hafi ávallt lagt mikla áherslu að vera með hráefni úr umhverfinu sem tengir líka við sögu svæðisins. Það hefur gengið vel að reka veitingahúsið frá upphafi og segja hjónin leyndarmálið vera ástríðu þeirra fyrir því sem þau gera og samheldni fjölskyldunnar. „Við erum samrýnd fjölskylda og eigum auðvelt með að vinna saman. Börnin okkar hafa hvatt okkur, sem er dýrmætt, og lagt hart að sér til að hjálpa okkur að láta Narfeyrarstofu vaxa og dafna. Við höfum öll mikla ástríðu fyrir því sem við erum að gera. Við höfum líka verið alveg einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur unnið hjá okkur í gegnum árin.“

Narfeyrarstofa rómantíkin

Gaman er að segja frá því að fyrr í sumar heimsótti Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut, Narfeyrarstofu og fékk innsýn í leyndardóma staðarins. Sjá má þáttinn hér: Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar og hægt er að fá nánari upplýsingar um húsið á vef fasteignasölunnar Híbýli

Hér má sjá myndir af Narfeyrarstofu:

Narfeyrarstofan rýmið 2

Narfeyrarstofa 2

Narfeyrarstofan efri hæðin

Narfeyrarstofa útisvæði

Narfeyrarstofa er við kirkjuna fallegu