Hildur vinnur fyrir flokkinn á launum hjá borginni

Svo virðist sem Hildur Björnsdóttir sem leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum hafi nú skrópað í vinnunni sem borgarfulltrúi í þrjá mánuði. Fram hefur komið að hún hafi ekki mætt á fundi í borgarstjórn, borgarráði, nefndum eða í stjórn Orkuveitunnar allt frá 15. febrúar á þessu ári. Í þrjá mánuði hefur hún skrópað í vinnunni – en þegið full laun allan tímann. Og launin eru alveg ágæt. Hildur er með 1,4 milljónir króna á mánuði fyrir störf sín fyrir borgina og tengda starfsemi.

Leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er því uppvís að vinnusvikum sem nema nú um fjórum milljónum króna. Þegar þetta var upplýst og Hildi gefinn kostur á að svara, taldi hún þetta ekki vera svaravert því að hún væri að undirbúa kosningabaráttu! Gera verður ráð fyrir því að allir oddvitar allra lista sem bjóða fram til borgarstjórnar í Reykjavík séu einnig að sinna kosningabaráttu af fullum krafti. En samt mæta þeir í vinnuna og leggja sitt af mörkum Fyrir það fá þeir launagreiðslur frá borginni og tengdum stofnunum.

Svör Hildar um að hún hafi verið með góða mætingu á kjörtímabilinu allt fram til 15. febrúar á þessu ári er ekkert svar. Fólk á einfaldlega að mæta í vinnuna. Út á það gengur starfssamband. Launamaður vinnur sína vinnu og vinnuveitandi greiðir umsamin laun. Þetta er ekki flókið. Gildir þetta jafnt um stjórnmálamenn og aðra. Borgarfulltrúi sem svíkst um í vinnunni er ekki góð fyrirmynd sem stjórnmálamaður. Skilaboðin til almennings, kjósendanna sem eru vinnuveitendur borgarfulltrúa, eru ekki boðleg því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Með þessari framkomu hefur Hildur Björnsdóttir, oddviti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sýnt dómgreindarleysi. Geta kjósendur í borginni treyst slíku fólki til að gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum? Full ástæða er til að efast um það.

Einhvern veginn hefur borgarstjóranum tekist að sinna sínu starfi á sama tíma og hann fer fyrir kosningabaráttu Samfylkingarinnar. Ekki verður betur séð en að Reykjavíkurborg eigi endurkröfu á Sjálfstæðisflokkinn fyrir launakostnaði Hildar þann tíma sem hún hefur verið í fullu starfi fyrir flokkinn en þegið laun hjá borginni.

- Ólafur Arnarson