Hið opinbera á nú að selja eignir og borga skuldir

30. október 2020
20:47
Fréttir & pistlar

Fjárlagahalli áranna 2020 og 2021 gæti orðið allt að 600 milljarðar króna. Viðskiptaráð hefur bent á að við þær aðstæður ætti að selja ríkiseignir sem ekki er nauðsynlegt að ríkið eigi.

Í Markaði Fréttablaðsins var fjallað um málið í síðustu viku. Ekki hefur orðið vart við nein viðbrögð vegna þessara hugmynda. Full ástæða er til að ræða málið áfram og kanna hvort stjórnvöld sjái ekki tækifæri í því að mæta vandanum með því að losa um ríkiseignir í stað þess að safna risaskuldum sem þarf að greiða á næstu árum með sköttum fólks og fyrirtækja.

Í grein Markaðarins, sem byggð er á skýrslu Viðskiptaráðsins, er fjallað um áætlað verðmæti nokkurra ríkisfyrirtækja. Auk þess gætu opinberir aðilar selt fasteignir sem þurfa ekki endilega að vera í opinberri eigu. Ríki og sveitarfélög geta alveg tekið húsnæði á leigu eins og fjölmörg atvinnufyrirtæki gera og einnig opinberir aðilar í vissum tilvikum.

Landsvirkjun er væntanlega verðmætasta ríkisfyrirtækið. Áður hefur verið bryddað upp á þeirri hugmynd að ríkið seldi tæpan helming Landsvirkjunar til stofnanafjárfesta en ætti áfram 51 prósent sem tryggði ríkinu yfirráð yfir stefnu og stjórnun fyrirtækisins. Í umræddri grein er nefnt að verðmæti fyrirtækisins gæti numið 312 milljörðum króna. Ætla má að áhugi banka, sjóða, vátryggingarfélaga og lífeyrissjóða á þessu fyrirtæki sé svo mikill að unnt yrði að selja hluti í því á hærra verði. Segjum að 49 prósent eignarhlutur í Landsvirkjun yrði seldur á 200 milljarða króna til stofnanafjárfesta, þá væri strax búið að fjármagna þriðjung af þeim halla sem getur orðið á ríkissjóði á árunum 2020 og 2021. Einnig væri tilvalið að selja Landsnet til slíkra aðila en rekstrarumhverfi fyrirtækisins er njörvað niður með sérstökum hætti sem unnt er að meta til verðmætis. Í greininni er Landsnet metið á 70 milljarða króna. Þá ætti að vera unnt að skrá ríkisbankana tvo á Kauphöll Íslands og selja hlutabréf í þeim fyrir 100 til 200 milljarða á næstu tveimur árum. Þá væri tilvalið að losa um fasteignir ríkissjóðs fyrir t.d. 100 milljarða króna á tveimur árum. Með þessu móti gæti ríkið aflað á bilinu 400 til 500 milljarða króna með sölu ríkiseigna og komist þannig mun hraðar og af mun meiri styrk út úr þeim vanda sem veiran alræmda hefur valdið.

Sama gæti gilt um fyrirtæki í eigu sveitarfélaga. Þar er einkum um eitt fyrirtæki að ræða sem er mikils virði. Þá er vísað til Orkuveitu Reykjavíkur sem er 95 prósent í eigu Reykjavíkurborgar. Í fyrrnefndri grein er fyrirtækið metið á 261 milljarð króna. Ef borgin veldi að selja 40 pr af fyrirtækinu til stofnanafjárfesta fyrir rúma 100 milljarða króna, ætti borgin engu að síður meirihluta í þessu mikilvæga fyrirtæki og gæti ráðið öllu um stefnu þess og stjórnun.

Opinberir aðilar ættu að skoða af fullri alvöru að losa um opinberar eignir sem ríki og sveitarfélög þurfa ekki nauðsynlega að eiga meirihluta í. Með því tækist að vinna þjóðina hraðar út úr þeim fjárhagsvanda sem veiran veldur opinberum aðilum.