Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor, í þætti Jóns G. í kvöld

Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor, verður gestur Jóns G. á Hringbraut í kvöld. Þau ræða söluna á Valitor til ísraelska fyrirtækisins Rapyd sl. sumar en sú sala er enn í eðlilegri skoðun hjá Samkeppniseftirlitinu.

Þau koma mjög víða við í samtalinu og fara yfir þær aðgerðir sem lagt var í hjá Valitor til að breyta rekstri fyrirtækisins út tapi í hagnað á þessu ári. Meðal annars tapaði fyrirtækið stórfé á árunum 2018, 2019 og 2020 -.sem aftur hafði áhrif á afkomu eiganda þess; Arion banka. Á sama hátt bætir sala Valitor eiginfjárstöðu bankans gangi kaupin eftir.

VIÐSNÚNINGURINN HJÁ VALITOR - HVAÐ VAR GERT?

En hvað gerðu stjórnendur Valitor til að breyta rekstrinum yfir í hagnað? Herdís segir að óhagkvæmar einingar í Englandi og Danmörku hafi verið seldar; skilvirkni hafi verið aukin á öllum sviðum; starfsmönnum fækkaði bæði hér heima og erlendis við sölu dótturfélaganna; grunnkerfi voru samþætt betur og þá var hagrætt í húsnæðismálum.

ÓÞARFA ÁHYGGJUR AF ERLENDU EIGNARHALDI

Þá ræða þau Jón G. áhyggjur margra af að eigendur greiðslumiðlunar á Ísland séu núna erlendir. Borgun var selt til brasilíska fyrirtækisins Salt Pay og bæði Valitor og Korta til Rapyd. Korta á síðasta ári. Herdís segir að þessar áhyggjur séu óþarfar, að hennar mati. „Það þarf eitthvað mikið til að stóru erlendu kortafyrirtækin hætti að skipta við Ísland; það gerðist til dæmis ekki í bankahruninu haustið 2008,“ segir Herdís.

EINSTÖK ÁVÖXTUN FRAMTAKSSJÓÐSINS

Þá spyr Jón G. hana um hina einstöku ávöxtun Framtakssjóðs Íslands undir stjórn Herdísar og samstarfsmanna en sjóðurinn fjárfesti í fyrirtækjum fyrir 43 milljarða og seldi síðar fyrri 83 milljarða um fimm árum síðar. Eða tvöfaldaði virði fyrirtækjanna á þessu tímabili.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar í kvöld kl. 20 og endursýndur eftir það á tveggja tíma fresti.