Henry Birgir vill að Þórólfur rífi sig í gang

„Pökkum í leikhúsin og barina en leyfum ekki einn áhorfanda á íþróttaleikjum. Þórólfur er bara að endurnýta gömul skjöl. Rífa sig í gang, takk.“

Þetta segir einn reynslumesti íþróttafréttamaður landsins, Henry Birgir Gunnarsson, á Twitter-síðu sinni.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag tilslakanir á samkomutakmörkunum sem taka gildi á fimmtudag. Ýmislegt breytist, almennar fjöldatakmarkanir fara úr 10 í 20 manns, krár og barir mega opna og fólk má fara í sund og stunda íþróttir. Eftir sem áður mega þó engir áhorfendur vera á íþróttakappleikjum.

Henry Birgir, sem er stjórnandi Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport, er gagnrýninn á þetta eins og raunar fleiri. Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport, hefur gagnrýnt sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda. Hann fagnar því þó að íþróttir fari af stað á nýjan leik.

„Vonandi er þetta bíó búið. Nú er að klára það með stæl sem eftir er og vonandi náum við að haga okkur næstu vikur.“

Ákvörðun Svandísar var í samræmi við minnisblað Þórólfs þar sem hann sagði orðrétt: „Íþróttakeppni barna og fullorðinna verði heimilar án áhorfenda.“ Flest bendir því til þess að engir áhorfendur verði á fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar sem til stendur að byrji að nýju í kringum mánaðamótin.