Hells Angels hlýða Víði: Jólaglöggið háð fjöldatakmörkunum

„Við þurfum að standa saman og tækla þetta af ábyrgð,“ eru skilaboð sem að yfirlögregluþjónninn Víðir Reynisson hefur verið óþreytandi við að boða undanfarna mánuði. Frasinn „Ég hlýði Víði“ fór snemma á flug í baráttunni sem staðið hefur yfir nánast allt árið og sem betur fer hefur meginþorri þjóðarinnar tekið skilaboðin til sín.

Framundan er þó varhugaverður tími. Fjöldi smita hefur verið að aukast undanfarna daga og jólamánuðurinn, með öllum sínum boðum og mannamótum, að bresta á. Margir eru orðnir þreyttir á samkomutakmörkunum og félagsforðun og því hafa sóttvarnaryfirvöld áhyggjur af því að fjórða bylgja gæti verið í vændum ef að ekki er stigið gætilega til jarðar. Sóttvarnarreglur yfirvalda gilda til þann 1. desember næstkomandi og er algjör óvissa um hvort að einhverjar tilslakanir verða veittar eftir þann tíma.

Liðsmenn mótorhjólagengisins Hells Angels halda ár hvert árlegt jólaglögg. Orðspor samtakanna er vafasamt í meira lagi og er löghlýðni kannski ekki fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar nafn mótorhjólagengisins ber á góma. Facebook-boðið í gleðskap Hells Angels-manna hefur því vakið nokkra athygli.

Þar er boðið til jólaglöggs Hells Angels þann 12. desember næstkomandi í Kópavogi en sérstaklega tekið fram að Covid-fjöldatakmarkanir gætu haft áhrif. Liðsmenn Hells Angeles hlýða kannski ekki alltaf landslögum en þeir hlýða Víði.

Jólaglögg.jpg