Helgi vill afnema bann við klámi hér á landi

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, kallar eftir því að Alþingi fjarlægi ákvæði almennra hegingarlaga sem bannar sölu og framleiðslu á klámi.

Þetta segir Helgi í samtali við Fréttablaðið en blaðið greindi frá því á forsíðu sinni í morgun að kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu væri með það til skoðunar hvort efni sem Íslendingar meðal annars selja aðgang að í gegnum vefsíðuna OnlyFans falli undir ákvæði hegningarlaga um framleiðslu og dreifingu á klámi.

Helgi er þeirrar skoðunar að ekkert í ákvæðinu eigi heima í nútímalöggjöf. Í gamla daga hafi ákvæðið fjallað um barnaklám en það hafi nú verið sett inn í aðra löggjöf.

„Kyn­ferðis­brota­kaflinn hefur þróast þokka­lega mikið í gegnum tíðina og það er ekkert lengur í þessu á­kvæði sem á að vera þarna. Að mínu mati má þetta á­kvæði fara í heild sinni,“ segir Helgi sem veltir fyrir sér hvaða vandamál samfélagið reyni að leysa með því að banna klám.

„Vill fólk banna klám bara af því það vill banna klám? Er það að reyna verja ein­hvern hóp? Eða er það að reyna verja sam­fé­lagið fyrir ein­hverjum á­hrifum? Hvert er mark­miðið? Eða er það að reyna verja sið­gæði?“ spyr Helgi.

„Því höfum það alveg á hreinu það er á­stæðan fyrir því að þetta var sett. Það var til að verja al­mennt sið­gæði. Sið­gæði á tíma þar sam­kyn­hneigð þótti ber­sýni­lega ó­sið­leg og kyn­líf kvenna var því­líkt tabú. Þaðan kemur þessi grein og ekki úr neinni annarri átt. Hún er ekki femínsk, hún er ekki til að verja fórnar­lömb mansals og hún er ekki til þess að vernda börn,“ segir Helgi.

Helgi hefur látið sig málið nokkuð varða og skrifaði hann langa færslu um það á Facebook-síðu sína í morgun. Í færslunni sagði hann að umræðan um klám væri mikilvæg og henni hvergi nærri lokið. Færslu hans má lesa hér að neðan:

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það eru margir vinklar á henni sem snúa að ólíkum aðstæðum...

Posted by Helgi Hrafn Gunnarsson on Þriðjudagur, 11. maí 2021