Heimir er látinn: Stórt hjarta, traustur, fyndinn, fal­legur og sá björtu hliðarnar á öllu

Heimir Jónas­son er látinn. Hann féll frá í dag 53 ára að aldri. Í janúar árið 2018 greindist Heimir með tauga­hrörnunar­sjúk­dóminn Corticoba­sal Degeneration (CBGD).

Heimir var vin­sæll, vina­margur og átti far­sælan feril í at­vinnu­lífinu. Hann lærði fram­leiðslu í Kvik­mynda­há­skólanum í München og starfaði sem kvik­mynda­fram­leiðandi og ráð­gjafi í aug­lýsinga- og markaðs­málum, meðal annars hjá Ís­lensku aug­lýsinga­stofunni.

Heimir jónasson

Þá var hann fyrr­verandi dag­skrár­stjóri og for­stöðu­maður Stöðvar 2 og var verk­efnis­stjóri sér­at­burða í markaðs­deild Icelandair. Hann var einnig fram­kvæmda­stjóri Markaðs­stofu Kópa­vogs og lauk MBA-námi í vor. Hann starfaði einnig sem þjálfari hjá Dale Car­negi­e.

Heimir Jónas­son greindist með sjald­gæfan sjúk­dóm í janúar árið 2017. Parkin­son plús er al­var­legt af­brigði af Parkin­son og er ó­læknandi tauga­sjúk­dómur sem veldur ýmiss konar hreyfi­hömlun.

Heimir sagði í við­tali við Frétta­blaðið fyrir tveimur árum: „Ég byrjaði að finna fyrir mátt­leysi í maí í fyrra. Ég byrjaði daginn á hlaupi hérna í ná­grenninu en ég var að byrja að undir­búa mig fyrir Reykja­víkur­mara­þonið sem ég hef iðu­lega tekið þátt í, bæði hlaupið 10 km og hálf­mara­þon,“ sagði Heimir, sem var mikill hlaupa­garpur. „Ég gat hins vegar ekki hlaupið nema um 3-400 metra og þurfti svo að ganga restina af einum kíló­metra.“

Heimir var farsæll í flestu sem hann tók sér fyrir hendur. Berg­lind Magnús­dóttir, eftir­lifandi eigin­kona Heimis greindi frá and­láti hans í dag. Berg­lind skrifaði:

„Elsku vinir. Það er með sorg í hjarta sem ég segi ykkur að Heimir minn kvaddi okkur í há­deginu í dag. And­látið var frið­sælt, við héldumst í hendur og þó þetta sé erfiðari stund en hægt er að í­mynda sér, vitið þið flest að hann var hvíldinni feginn. Takk fyrir að­stoðina, hugul­semina og hlýjar kveðjur sem við höfum fengið. Við fjöl­skyldan stöndum þétt saman á þessari sorgar­stund og vitum að Heimir er með okkur í anda, frjálsari nú en hann hefur verið um langa hríð, hans dá­sam­legi hlátur og mikla lífs­gleði og mann­gæska er það við munum um alla fram­tíð.“

Heimir og Berglind

Fjöl­margir minnast Heimis á sam­fé­lags­miðlum. Einn af þeim er vinur Heimis, fyrr­verandi frétta­stjóri Stöðvar 2 og rit­stjóri, Stein­grímur Sæ­varr Ólafs­son. Hann segir:

„Sorg í hjarta, erfitt, tárin renna. Heimir Jónas­son vinur minn kvaddi okkur í há­deginu og er horfinn til austursins ei­lífa eftir snarpa bar­áttu við ill­vígan sjúk­dóm, en ég veit að hann er frelsinu feginn. Heimir var vinur vina sinna, með stórt hjarta, ein­hver fyndnasti maður sem ég þekkti og sá alltaf björtu hliðarnar á öllum málum.

Það er tóm í hjartanu, verkur mikill, nú þegar hann er farinn en minningin um fal­legan dreng lifir með okkur.

Farðu í friði elsku vinur og inni­legustu sam­úðar­kveðjur og hlýjustu hugsanir til Berg­lindar og barnanna þriggja.“

Hring­braut sendir öllum vinum Heimis sam­úðar­kveðjur.

Heimir í góðra vina hópi