Heimilislausir vilja sjálfstæða búsetu

Á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 6. febrúar var m.a. farið yfir könnun velferðarsviðs á væntingum og þörfum þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði. Í könnuninni voru tekin viðtöl við jaðarsett heimilislaust fólk, sem vildu öll hafa sjálfstæða búsetu og voru flest á biðlista vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Þetta kemur fram í frétt Reykjavíkurborgar.

Kannað var viðhorf þeirra sem eru heimilislausir og þurfa búsetu með stuðningi og nýta sér neyðarskýli Reykjavíkurborgar í dag. Í Gistiskýli og Konukoti vildu 13 af 14 viðmælendum komast í sjálfstæða búsetu, en allir viðmælendur í Konukoti og fjórir af átta viðmælendum í Gistiskýlinu sögðust vera á biðlista vegna félagslegs leiguhúsnæðis í sínu bæjarfélagi. Áttu viðmælendur það sameiginlegt að vilja vita meira um stöðu sína á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

Nær allir Reykvíkingar sögðust hafa leitað sér aðstoðar hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar vegna aðstöðu sinnar. Þeir sem bíða eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir jaðarsett fólk virðast bera traust til vettvangs- og ráðgjafateymis borgarinnar og sækja nánast allir stuðning þangað sem og í neyðargistiskýlin.  

Viðmælendur sögðust hafa verið heimilislausir frá allt að fjórum mánuðum upp í 15 ár. Allir sögðust hafa gist meira og minna í neyðarskýlunum þann tíma sem þeir hefðu verið heimilislausir. Einnig sögðust viðmælendur hafa gist í bílnum sínum, á áfangaheimili og hjá vinum og ættingjum. Einn viðmælandi var á biðlista eftir að komast í smáhýsi. Öll vildu þau hafa sjálfstæða búsetu en flest vildu einhvern stuðning og misjafnt var hvort fólk vildi halda áfram í neyslu.

Niðurstöður könnunarinnar styðja við áform Reykjavíkurborgar um félagslega blöndun og fjölbreyttar lausnir í húsnæðismálum, sem eru meðal annars að bjóða þeim sem búa við ótryggt húsnæði tímabundnar lausnir meðan beðið er.

Neyðarskýli fyrir unga fíkniefnaneytendur verður opnað á Grandagarði í vor  og  unnið er að skipulagi á lóðum fyrir smáhýsi sem verða staðsett í nokkrum þyrpingum. Auk þess er áætlað  að 600 nýjar félagslegar leiguíbúðir verði byggðar eða keyptar í Reykjavík til ársins 2023.