Heilbrigðisyfirvöld hætti lífshættulegum lögguleik sínum

8. september 2020
15:27
Fréttir & pistlar

„Eina leiðin út úr þessari blindgötu er að heilbrigðisyfirvöld hætti þessum lífshættulega lögguleik og einbeiti sér aftur að því að bæta heilsu Íslendinga með raunhæfri stefnu sem er sjálfbær til lengri tíma.“ Þetta segir Jóhannes Loftsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Jóhannes er formaður Frjálshyggjufélagsins og menntaður efnaverkfræðingur og byggingarverkfræðingur.

Jóhannes segir að smám saman hafi hefðbundnar lækningar orðið að víkja fyrir óhefðbundinni löggæslu sem enginn veit hvenær muni enda: „Slík alræðisinngrip í lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu kosta alltaf fórnir sem nú eru smám saman að koma í ljós.“

Hann er alfarið mótfallinn óþarfa lokun landamæranna sem ríkisstjórnin ákvað um miðjan ágúst, eftir mikinn ágreining við stjórnarborðið. Hann telur að slík ráðstöfun valdi svo stóru hruni að enginn treysti sér til að reikna það út.

Jóhannes ber saman bankahrunið á Íslandi árið 2008 og Covid-hrun sem hér gæti verið framundan ef ekki verður breytt um stefnu á næstunni: „Gervigengi var haldið uppi af Seðlabankanum.“ Þá nefnir hann að allar gagnrýnisraddir hafi verið þaggaðar niður eins og nú verður vart.

„Árið 2007 var stefnu stjórnvalda stýrt af hagsmunum banka, en nú eru óbeinir talsmenn stærstu lyfjafyrirtækja heims þeir sem mest áhrif hafa á stefnuna.“ Er þetta ekki kjarni málsins? Óhætt er að gefa þessari staðhæfingu Jóhannesar sérstakan gaum!