Heiða mætti manninum í World Class: „Fraus, ældi og fór aldrei þarna inn aftur“

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, er í hópi þeirra kvenna sem lýst hafa reynslu sinni af ofbeldi af hálfu karlmanna síðustu daga.

Heiða hefur aldrei tjáð sig opinberlega um reynslu sína sem átti sér stað fyrir margt löngu.

„Ég var einu sinni að æfa í World Class í Fellsmúla og í eitt skiptið mætti ég óvænt geranda í anddyrinu. Ég hélt ég væri búin að gera allt upp og þetta væri ekkert mál. Fraus, ældi og fór aldrei þarna inn aftur, þakkaði fyrir að ég var þarna með vinkonu,“ segir Heiða og bætir við að þar til nú sé vinkona hennar sú eina sem veit af þessu.

„Enda hefði ég aldrei sagt frá eða kært. Glætan, þetta var flottur maður í góðri stöðu og enginn hefði trúað mér.“

Helga Vala Helgadóttir, þingkona og samherji Heiðu úr Samfylkingunni, segir á Twitter-síðu sinni í dag að hún hafi árum saman starfað sem lögmaður brotaþola kynferðis- og ofbeldisbrota. Hún gekk vaktir á neyðarmóttöku í viku í senn á sex vikna fresti allan ársins hring.

„Ég hitti aldrei á þessum tíma brotaþola sem hefði að gamni sínu gengið í gegnum þá raun sem því fylgir,“ segir Helga Vala sem rifjaði upp það langa ferli sem tekur við þolendum ofbeldisbrota.

„Að mæta á Neyðarmóttöku og greina frá því sem gerðist, fara í læknisskoðun, taka lyf til að varna þungun, sýnatökur til að kanna möguleg smit, ítrekaðar lýsingar á atburðum, skýrslutaka, önnur skýrslutaka til að bregðast við frásögn geranda, bið... bið.... bið.... enn ein skýrslutaka... opinber umfjöllun, umfjöllun í nánasta samfélagi, útskúfun, meðaumkun, hverjir vita og hverjir vita ekki hvað gerðist.... bið... sálfræðiviðtöl.... og meiri bið,“ sagði Helga Vala og hélt áfram:

„Ákvörðun lögreglu um að halda áfram með málið, senda til Héraðssaksóknara til að gefa út ákæru... ákvörðun lögreglu um að fella niður málið því það er orð gegn orði... Ákæra gefin út.... undirbúningur fyrir það að gefa skýrslu fyrir dómi... en fá ekki að vera viðstödd/viðstaddur því þú ert ekki aðili máls, þú ert bara vitni að broti gegn þér... bið... Niðurstaða héraðsdóms... nokkrum árum eftir að brot átti sér stað... mögulega sakfelling.... mögulega áfrýjun... en þú þarft að halda áfram með lífið fyrir þig og þitt fólk... Ég ítreka, ég hitti aldrei á mínum lögmannsferli einstakling sem var að leika sér að því að leita á Neyðarmóttöku eða kæra brot til lögreglu. Þetta er ekki gleðistund...“