Háskólakennarinn og hagfræði andskotans

Þegar menn eru ósáttir við kenningar og útreikninga hagfræðinga grípa þeir stundum til þess að tala um hagfræði andskotans.

Þessa verður stundum vart í málflutningi talsmanna launþega ef þeir eiga erfitt með að skilja útreikninga á vinnumarkaði varðandi kaup og kjör og telja þá ósanngjarna eða beinlínis ranga.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, kom fram í Kastljósi ríkissjónvarpsins í vikunni og malaði þar út í eitt um að hér væri allt í fínu lagi og bara hið besta mál að öll starfsemi ferðaþjónustunnar lægi niðri og væri tímabundið úr leik. Hann sagði að 90 prósent hagkerfisins væri í uppsveiflu og því skiptu 10 prósent engu máli.

Þannig talaði Gylfi gagnrýnis-og truflunarlaust allan þáttinn. Spyrill ríkissjónvarpsins gerði enga tilraun til að beina honum inn á réttar brautir.

Háskólakennarinn vék ekki einu orði að þeim 27.000 einstaklingum sem eru án atvinnu og á bótum. Talað er um 12 prósent atvinnuleysi sem muni ekki lagast fyrr en flug og ferðaþjónusta komast á skrið. Hann nefndi ekki heldur að við eðlilegar aðstæður aflar ferðaþjónustan meiri gjaldeyris en sjávarútvegur og stóriðja til samans. Þá skapar greinin þriðjung starfa á vinnumarkaði þegar ástandið er eðlilegt og engin atvinnugrein leggur eins mikið til hagvaxtar þjóðarinnar og ferðaþjónustan.

Gylfi sá ekki ástæðu til að geta um neitt af þessu í þættinum og er því algjörlega ótrúverðugur fyrir bragðið.

Tal hans um eitthvert tíu prósent hagkerfi er í besta falli kjánalegt og ekki einu sinni nothæft sem apríl-gabb.

Skattgreiðendur eru með þúsundir manna á launum í háskólum landsins við margvísleg störf og rannsóknir. Það hlýtur að vera hægt að gera kröfur til þeirra um vandaðri vinnubrögð en þau sem Gylfi Zoega leyfði sér að kynna í vikunni.