Haraldur hótaði ingvari lífláti og skvetti yfir hann úr vínglasi: sjáðu lögregluskýrsluna - „veistu ekki hver ég er?“

„Eitt erfiðasta persónulega mál sem Haraldur hefur glímt við á ferli sínum sem ríkislögreglustjóri kom upp á Vínbarnum í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 4. Febrúar 2001. Rétt fyrir klukkan fjögur um nóttina hringdi maður úr farsíma til lögreglunnar og tilkynnti að maður hefði hótað öðrum lífláti.“

Þannig hefst umfjöllun í Mannlífi sem birt var árið 2005. Þar var fjallað um þegar Haraldur Johannessen, þá eins og nú, var starfandi ríkislögreglustjóri. Á þeim tíma voru líflátshótanir sjálfkærðar en ekkert var gert í máli Haraldar. Þá var skýrslu breytt nokkrum dögum síðar eftir að hótunin var borin fram.  Þá stóð ekki lengur kærður heldur „annað.“ Hringbraut ræddi við annað vitnið sem kveðst enn í dag standa við allt sem fram kom í skýrslunni.

Síðustu mánuði hefur Haraldur verið harðlega gagnrýndum af lögreglumönnum og því verið haldið fram að hann gangi fram með ógnar og óttastjórnun. Haraldur sagði sjálfur í afar umdeildu viðtali við Morgunblaðið að gagnrýni á hans störf væri sett fram til að reyna bola honum úr embætti. Þeir sem stæðu á bak við róginn sværu óhæfir starfsmenn sem væru að reyna að valda ólgu og óróa. Þá sagði Haraldur að ef til starfsloka kæmi myndi það kalla á ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna sem á sér stað á bak við tjöldin. Þá gaf hann í skyn að spilling væri innan lögreglunnar en dró í land eftir fund með dómsmálaráðherra. Eftir að stormurinn geisaði hafa verið birtar nærmyndir af Haraldi og eldri mál og umdeild verið rifjuð upp. Eitt af þeim er atvikið á Vínbarnum, sem í dag heitir Klausturbar.

Lögreglu barst þá tilkynning um að maður hefði látið þar ófriðlega og hótað öðrum manni lífláti. Í umfjöllun Mannlífs frá árinu 2005 sagði:

„Þrír lögreglumenn voru þegar sendir á vettvang en þegar þangað kom var sá sem hótaði horfinn á braut. Sá sem varð fyrir hótuninni, Ingvar Jónadab Karlsson heildsali, upplýsti að sá sem ætti hlut að máli væri Haraldur Johannssen ríkislögreglustjóri sem hefði skvett framan í sig úr vínglasi og síðan hótað sér lífláti. Vitnin Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og Kristinn Pétur Magnússon, staðfestu framburð Ingvars.

\"\"

Lögreglumennirnir þrír tóku atburðinn alvarlega þar sem um líflátshótun var að ræða og þeir tóku ítarlega skýrslu af fórnarlambinu og vitnunum. Ingvar lýsti þá yfir að hann myndi kæra og lögreglumennirnir sögðu að hann yrði að koma á virkum degi á lögreglustöðina og staðfesta kæruna.

Ingvar og Haraldur þekktust ekki áður en til atburðanna á Vínbarnum kom. Aðdragandi hótunarmálsins var sá að Ingvar kom inn á barinn og sá Harald sitja þar við borð. Hann taldi sig þekkja þar við borðið gamlan skólabróður sinn, Sigurð og ávarpaði Harald sem slíkan. Ríkislögreglustjóri mun hafa brugðist illa við og staðið upp. Vitni herma að hann hafi sagt með þjósti að hann héti Haraldur og væri ríkislögreglustjóri en síðan skvett úr glasinu framan í Ingvar. Líflátshótunin var, að sögn vitna að atburðinum, borin fram í framhaldinu.

Það vakti sérstaka athygli vitnanna að Haraldur gekk síðan yfirvegaður út af staðnum og gaf sér tíma til að spjalla stuttlega við dyraverði áður en hann hvarf út í nóttina.

Atburðurinn var á sínum tíma bókaður í kerfi lögreglunnar í Reykjavík. Þriðjudaginn 6. febrúar er framhaldsbókun hjá lögreglunni í Reykjavík undir liðnum „hótanir“. Þar skráir Guðmundur Ingi Ingason lögreglumaður að engin kæra verði lögð fram vegna málsins.

Þau sjónarmið voru þó uppi að lögum samkvæmt bæri að vísa líflátshótunarmáli til saksóknara, hvort sem fórnarlamb kærði eða ekki. Þetta er til að fyrirbyggja að fórnarlömb hætti við kæru vegna ótta við þann sem ber fram hótunina.

„Hver sem hefur frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um að líf, heilbrigði eða velferð sína og annarra, þá varðar það sektum,“

segir í 233 grein hegningar. Í 242 grein sömu laga segir að slík mál skuli sæta opinberri ákæru.

Innan lögreglunnar var talsverður urgur vegna málsins þar sem því var ekki fylgt eftir. Í frumbókun lögreglu í dagbók var skilgreiningu á Haraldi breytt úr kærður í annað.

Málið endaði í dagbókinni en fór aldrei til saksóknara eins og lög kveða á um. Heimildir herma að Ingvar hafi ekki lagt í að staðfesta kæru vegna atburðarins þar sem um sjálfan ríkislögreglustjóra var að ræða. Einhverjir innan lögreglunnar tóku síðan af skarið og málinu lauk með þessum hætti og Haraldur slapp við skrekkinn. En eins og áður segir hefði málið átt að vera sjálfkært.

Heimildir herma að Haraldur hafi beðist afsökunar á skvettunni og boðist til að borga hreinsun á fötum hans.

\"\"

 

Í skýrslu lögreglumanna sem komu á staðinn var atburðarásinni lýst á þessa leið:

Er við komum á vettvang hittum við fyrir Ingvar sem tjáði okkur að maður hefði skvett úr vínglasi yfir sig og hótað honum síðan lífláti. Aðspurður sagði Ingvar um aðdraganda málsins að hann hefði verið staddur á Vínbarnum er hann sá gamlan skólafélaga sinn sitja við börð og ákvað Ingvar að heilsa uppá hann. Ingvar sagði að fleira fólk hefði setið við borðið.

Ingvar sagði að skólafélagi hans hefði kynnt sig fyrir fólkinu við borðið og þar á meðal mann að nafni Sigurð. Ingvar sagði síðan að Sigurður hefði risið á fætur og sagt við sig:

„Veistu ekki hver ég er?“

Ingvar sagðist hafa svarað því neitandi og spurt hvort hann héti ekki Sigurður. Þá sagði Ingvar að maðurinn hefði æst sig og sagst heita Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og skvett úr vínglasi yfir sig. Í framhaldi af því hafði Haraldur hótað að drepa sig. Ingvar sagði að Haraldur hefði síðan farið út af Vínbarnum.

Tvö vitni voru að atburðinum, þeir Guðmundur og Kristinn, þeir sögðust báðir þekkja manninn sem skvetti úr vínglasinu yfir Ingvar sem Harald Johannessen Ríkislögreglustjóra. Þeir sögðu sögu Ingvars á sama hátt og hann.

Hringbraut reyndi að ná tali af Guðmundi Franklín vegna málsins sem sagðist aðeins myndi gera slíkt í beinni útsendingu. Seinna lokaði hann á blaðamann Hringbrautar svo ekki áttu sér stað frekari samskipti við forsetaframbjóðandann fyrrverandi.

Hitt vitnið, Kristinn sagði í samtali við Hringbraut að hann myndi vel eftir því sem gerðist á Vínbarnum, nú Klausturbar. Kristinn segir í samtali við Hringbraut.

„Ég stend við það sem kemur fram í skýrslunni. Það er ekki boðlegt að maður í opinberu starfi hegði sér svona. Mér fannst þessi hegðun vera fyrir neðan allar hellur. Ég hefði ekki ómakað mig við það að bera vitni þarna á staðnum ef mér hefði ekki verið svona rosalega misboðið.“