Hannes skýtur föstum skotum á Ólaf Ragnar: „Hann situr í veislu­glaumnum“

Hannes Hólm­steinn Gissurar­son stjórn­mála­fræðingur vill að samið verði um vopna­hlé í Úkraínu­stríðinu og hvetur fólk til að stjórnast ekki af Rússa­hatri.

Hann segist þó ekki vera á sömu línu og Ólafur Ragnar Gríms­son, fyrr­verandi for­seti Ís­lands, sem sé í veislu­glaumnum í Kreml-kastala. Hannes segist standa með rúss­neskri al­þýðu á Rauða torginu.

„En áður en ég segi ég við hvernig það verður þá vil ég taka það sér­stak­lega fram að ég er stuðnings­maður Úkraínu. Það er enginn vafi í mínum huga að hinir seku aðilar eru Rússar. Þeir réðust inn í Úkraínu og þeir hafa framið marg­vís­leg voða­verk, eins og oft er gert í stríðum og Úkraínu­menn hafa unnið á­róðurs­stríðið. En hvernig endar þetta? Þetta getur bara endað á einn hátt ef menn eru ekki al­ger­lega heillum horfnir, með því að það verði samið um vopna­hlé, síðan verði at­kvæða­greiðslur í hinum um­deildu héruðum í austur­hluta Úkraínu um hvort í­búarnir þar vilja frekar til­heyra Úkraínu eða Rúss­landi. Það er ekki okkar að á­kveða fyrir aðra hverjum þeir eiga að til­heyra,“ segir Hannes í sam­talivið Vísi.

Hannes vill að Úkraína sé boðin vel­komin í vestrið og verið aðili að Evrópska efna­hags­svæðinu.

Mál­flutningur Ólafs Ragnars í Silfrinu féll í grýttan jarð­veg þar sem hann kenndi stækkun NATO um að hafa valdið stríðinu.

„Ég held að munurinn á Ólafi Ragnari og mér sé að hann situr í veislu­glaumnum inni í Kreml-kastala, en ég er úti á Rauða torginu með fólkinu. Það er að segja: Hjarta mitt slær með rúss­nesku þjóðinni, ekki með rúss­nesku vald­höfunum. Það sem ég vil gera í fram­tíðinni er að vera í góðum við­skiptum við rúss­nesku þjóðina og ég vona svo sannar­lega að Pútín hrökklist frá völdum og við taki lýð­ræðis­lega kjörnir vald­hafar sem færa Rúss­land aftur í átt til vesturs. Opna glugga, smíði brýr. Ég vil ekki reisa múra, heldur smíða brýr,“ segir Hannes.

Hægt er að horfa á við­talið við Hannes á Vísi hér.