Hannes Hólm­steinn vill Sig­mund og fé­laga í Sjálf­stæðis­flokkinn

Hannes Hólm­steinn segir Ís­lendinga hafa kosið stöðug­leika í ný­liðnum Al­þingis­kosningum. Þetta kemur fram í nýjum pistli Hannesar á vef Con­servati­ve en hann ræðir úr­slitin líka á Face­book síðu sinni.

„Hér reyni ég að skýra og greina úr­slitin í kosningunum. Það er auð­vitað ekki að furða, að þeir á RÚV kalla aldrei á mig til að ræða um stjórn­mál: Þeir geta ekki treyst því, að röddin sé berg­mál,“ skrifar Hannes á Face­book þar sem hann kynnir pistil sinn til sögunnar.

Leggur Hannes þar meðal annars til að Sig­mundur Davíð og tveir fé­lagar hans í Mið­flokknum gangi til liðs við Sjálf­stæðis­flokkinn. Hann segir Sam­fylkinguna hafa tapað vegna bónusa Krist­rúnar Frosta­dóttur sem hún hlaut sem aðal­hag­fræðingur Kviku banka.

Þá hnýtir Hannes í Gunnar Smára Egils­son, for­mann Sósíal­ista. Hann lýsir Gunnari Smára sem fyrr­verandi blaða­manni sem gefið hafi út æsi­frétta­blöð og tíma­rit sem öll hafi farið á hausinn.

Hannes segir Gunnar Smára hafa verið á ofur­launum, eignast góðar eignir og svo platað Jón Ás­geir í út­gáfu­ævin­týri í Dan­mörku. Hann segir Gunnar Smára ekki hafa hætt þar, heldur haldið á­fram og gengið í Sam­tök múslíma á Ís­landi og að berjast fyrir því að Ís­land gengi í Noreg.

Í kosninga­bar­áttunni hafi Gunnar Smári svo breyst í Lenín­ista, og hótandi að reka dómara.

At­kvæði til Fram­sóknar til ríkis­stjórnarinnar

„Tvær kenningar mínar um kosninga­úr­slitin, sem ég sé ekki haldið á lofti annars staðar: 1) At­kvæði greidd Fram­sóknar­flokknum voru að miklu leyti at­kvæði greidd stjórnar­flokkunum al­mennt. Skoðana­kannanir sýndu meira fylgi við stjórnina al­mennt en við stjórnar­flokkana hvern um sig, og þeir stuðnings­menn stjórnarinnar, sem áttu erfitt með að á­kveða sig, leystu þann vanda með því að krossa við Fram­sóknar­flokkinn,“ skrifar Hannes.

„2) Sósíal­ista­flokkurinn hirti það fylgi, sem Sam­fylkingin hafði gert sér vonir um að fá frá Vinstri grænum með því að færa sig til vinstri við þá, en hann kom jafn­framt í veg fyrir, að það skilaði sér í þing­sætum. Gunnar Smári kostaði Sam­fylkinguna nú ekki minna með fram­boði sínu en Baug forðum með ævin­týrunum er­lendis.
Það hefur síðan marg­oft komið fram hjá öðrum, að lítill á­hugi reyndist vera á að rústa kvóta­kerfinu, sam­þykkja drögin frá hinu ó­lög­lega kjörna Stjórn­laga­ráði (sem Fen­eyja­nefndin varaði sér­stak­lega við) og ganga í Evrópu­sam­bandið. Þau mál virðast ekki vera á dag­skrá og því síður „ó­jöfnuður“ (vildar­orð um ó­jafna tekju­dreifingu), en í aug­lýsingu frá Há­skóla Ís­lands um fund viku fyrir kosningar var „ó­jöfnuði“ lýst sem einni helstu ógn 21. aldar. (Fundar­boð­endur höfðu væntan­lega ekki frétt af hryðju­verkunum 2001, fjár­mála­kreppunni 2007–2009, heims­far­aldrinum 2019–2021, að­förinni að mál­frelsi í há­skólum og á fjöl­miðlum, fram­gangi öfga­múslima í Afgan­istan og víðar, undir­okun Tíbets og Hong Kong og her­ferð gegn þjóða­brotum í austur­hluta Kína, jafn­framt því sem kín­verski kommún­ista­flokkurinn hefur hafið kalt stríð gegn Vestur­löndum.)“