Hallgrímur varð fyrir aðkasti: „Ég átti erfitt með að trúa því sem var að gerast“

Hallgrímur Helgason rithöfundur rifjar upp þau viðbrögð sem hann fékk hér á landi eftir að hann opnaði sig um nauðgun sem hann varð fyrir á námsárum sínum í Þýskalandi.

Hallgrímur greindi frá þessari erfiðu reynslu í bókinni Sjóveikur í Munchen sem kom út árið 2015. Í færslu á Facebook-síðu sinni segist hann ekki hafa ætlað að troða sér inn í þá MeToo-bylgju sem nú ríður yfir þar sem konur og stúlkur eiga og eiga að eiga sviðið. Hann upplifði þó gamlar tilfinningar eftir að hafa lesið færslur útvarpsmannsins Eiríks Guðmundssonar á Facebook.

„Fyrir sex árum síðan kom út skáldsaga eftir mig þar sem ég sagði frá nauðgun sem ég mátti þola sem ungur maður. Átrúnaðargoð Eiríks, rithöfundurinn Guðbergur Bergsson, brást við með blaðagrein þar sem hann gerði stólpagrín að þessu, já, grín að nauðgun, sakaði mig um að hafa skáldað þetta upp í þeirri von að selja fleiri bækur og klykkti út með: “Hvaða kynvillingur hafði svona slæman smekk?”“

Beint úr kjallara kommentakerfanna

Hallgrímur bendir á að þetta hafi sannarlega verið furðuleg skrif sem þó hafi ekki snert hann mikið. „Guðbergur hafði áður afsakað nauðgara og gert grín að stelpum sem urðu fyrir barðinu á þeim, hann var því bara klikkhausinn í þessari umræðu og skrif hans í raun beint út úr kjallara kommentakerfanna. Að öðru leyti upplifði ég bara stuðning og pepp í samfélaginu.“

Hallgrímur segir að viku síðar hafi hann verið á heimleið í bílnum þegar hann kveikti á Víðsjá á Rás 1. Segir hann að Eiríkur Guðmundsson hafi byrjað þáttinn á að lesa allan pistil Guðbergs og smjattað á orðum hans líkt og hann hefði gaman af.

„Ég átti erfitt með að trúa því sem var að gerast. Stjórnandi helsta menningarþáttar Ríkisútvarpsins var að grínast með nauðgunina sem ég lenti í! Þetta var áfall, þarna upplifði ég það sem margir brotaþolar lenda í, “secondary victimisation” heitir það á fræðimáli, þegar þolendur segja frá og verða fyrir aðkasti og spotti samfélagsins,“ segir Hallgrímur og bætir við að þetta sé algengt, til dæmis á landsbyggðinni þegar stelpursegja frá og upplifa það í kjölfarið að þær séu hinn seki.

Hallgrímur segir að honum hafi liðið eins og nauðgunin hefði verið endurtekin og brotnaði saman. Hann var þungur í margar vikur og endaði í tíma hjá Stígamótum sem hann segir að hafi verið heillaskref sem hann hefði átt að vera búinn að taka fyrir löngu.

Sáttatilraun gaf honum lítið

„Ári seinna heyrði ég að Eiríkur væri með móral útaf þessu og hafði samband við hann á email, bauð honum að ræða málið í þeirri von að komast yfir þessi vonbrigði og reiðina sem ég fann fyrir. Hafði ég kannski misskilið upplegg hans með lestrinum á pistli Guðbergs, var hann kannski einmitt að býsnast yfir efni hans? Þessi tölvupósts-samskipti okkar byrjuðu vel, og ég fann vott af sátt, en þau enduðu þó með því að Eiríkur viðurkenndi að hafa “dansað á línunni” eins og hann orðaði það. Hann hafði semsagt ekki lesið pistilinn upp af vandlætingu heldur af því hann hafði lúmskt gaman af og langaði til að “dansa á línunni”,“ segir Hallgrímur og bætir við að þessi sáttatilraun hafi því gefið honum lítið.

„Allar götur síðan hef ég átt erfitt með að hlusta á Víðsjá (og áður Lestina) með Eiríki. Ég hef þó nokkrum sinnum farið í viðtal til hans, alltaf með spennu í brjósti, og einnig nokkrum sinnum hitt hann í samkvæmum, og í raun alltaf átt þá von að geta umgengist hann eðlilega. Að lesa þessa statusa í gærkvöldi vakti svo upp gamlar tilfinningar, ég gat ekki orða bundist, og því þessi hugleiðing,“ segir Hallgrímur og deilir skjáskotum af skrifum Eiríks sem má sjá í færslu hans hér að neðan.

Hallgrímur endar færslu sína á þessum orðum:

„Sjálfsagt finnst þó einhverjum þetta vafasamt skref, af miðaldra karli inn í kvennamómentið, og sjálfsagt finna ekki allir til samúðar, benda á að höfundurinn ég hafi með bókum mínum sært heilu fjölskyldurnar og byggðarlögin jafnvel. Samt set ég þetta hér inn og vona að Eiríki sé alvara með orðum sínum, hann sjái hlutina öðruvísi nú en þá, batnandi mönnum sé best að lifa. Mig dreymir alveg enn um að geta hlustað sárindalaust á þann annars ágæta þátt Víðsjá.“

Ég ætlaði ekki að troða mér inn í Metoo-bylgjuna þar sem konur og stúlkur eiga og eiga að eiga sviðið. En verð samt að...

Posted by Hallgrímur Helgason on Miðvikudagur, 12. maí 2021