Hallgrímur orti magnað ljóð um Hrafn – „Og dauðinn bara spyr: Var ekki gaman?“

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og vinur Hrafns Jökulssonar heitins, sem lést fyrr í þessum mánuði, orti ansi magnað ljóð um Hrafn sem hann las upp á Facebook-síðu sinni og birti.

Hallgrímur er án efa eitt okkar besta skáld eins og ljóð hans er til vitnis um. Hrafn var jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag og voru margir sem minntust hans í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag.

Ljóðið sem Hallgrímur birti má lesa hér að neðan og þá má sjá tilfinningaþrunginn flutning hans á ljóðinu hér neðst.

HRAFN

Alltaf var ég hræddur við hann Hrafn.

Svo hraður, fimur, illa klár og galinn.

En nú er græskur genginn fyrir stafn

og glottir ekki lengur yfir salinn.

.

Æ, manstu þegar þú og tregur ég

þræddum bæinn upp á svalar tungur.

Á meðan eygði efinn fram þinn veg:

Ég ætíð hélt þú myndir deyja ungur.

.

Þu varst gallagripur, mjög var æmt.

Ég gat þig ekki löngum árum saman.

En lífið verður ei af dældum dæmt

og dauðinn bara spyr: Var ekki gaman?

Höfundur: Hallgrímur Helgason