Hall­grímur mjög ó­sáttur: „Getur starfs­fólkið á Mogganum starfað undir þessu?“

„Mogginn datt inn um lúguna í dag eins og jafnan á fimmtu­dögum. Og Stak­steinar voru ná­kvæm­lega eins og maður hélt, enda morðið á Geor­ge Floyd gott til­efni til ras­isma hjá litla sæta aftur­haldinu okkar.“

Svona hefst færsla Hall­gríms Helga­sonar rit­höfundar sem gerir stak­steina Morgun­blaðsins í dag að um­tals­efni á Face­book-síðu sinni.

Ó­hætt er að segja að stak­steinar dagsins veki at­hygli en þar er, eins og Hall­grímur bendir á, fjallað um morðið á Geor­ge Floyd og við­brögðin við því. Bent er á að 84 ein­staklingar hafi verið skotnir í Chi­cago um liðna helgi og þar af hafi 23 látist. Frá ára­mótum hafi 220 dáið í skot­á­rásum í borginni.

„Flestir þeirra sem féllu eru úr hópi blökku­manna. Engin mót­mæli hafa borist út um Banda­ríkin vegna þessa. Eldur hefur ekki verið borinn að verslunum, veitinga­stöðum eða í­búðum fólks af þessu til­efni,“ segir stak­steina­höfundur sem bendir á að demó­kratar hafi farið með völd í borginni undan­farin ár.

Stak­steina­höfundur segir enn fremur:

„Það er því lík­legt að þessi morð hafi ekki endi­lega orðið í ó­göfugum til­gangi né þau önnur morð með skot­vopnum, nærri 400 á ári hverju, sem verða og þau tæp­lega 3.000 sem særast í á­rásunum að auki. Engin mót­mæli hafa orðið í er­lendum borgum vegna þessa. Allt farið fram hjá Austur­velli. Þó hlýtur þessi morða­lda í Chi­cago með ein­hverjum hætti að vera Donald Trump að kenna og þótt þetta á­stand hafi verið hið dag­lega brauð borgarinnar yfir­gengi­lega lengi. Getur enginn stöðvað manninn?“

Hall­grímur gagn­rýnir þessi skrif harð­lega í færslu sinni og segir hann að þarna sé gert lítið úr mót­mæla­fundi til stuðnings lituðu fólki hér á landi og vestra. Þá sé grínast með morð­ölduna í Chi­cago. „Ekki vottar fyrir skilings­grammi á allri þeirri miklu og svörtu sögu,“ segir Hall­grímur.

Hann bendir á að Stak­steinar hafi fyrir skemmstu fjallað um það hvað CO­VID-19 væri gott fyrir þjóðir heims og þjóð­ernis­sinna. „Þær hættu þá þessum þvælingi sín á milli, allir væru bara heima hjá sér, þar sem fólk á að vera. Sem­sagt annar rasískur pistill frá rit­stjóranum.“

Hall­grímur segir að nú sé nóg komið.

„Þjóðin hefur nú um­borið það í rúman ára­tug að rit­stjóri annars stærsta dag­blaðs landsins sé ekki bara gamall og gjör­spilltur upp­gjafa klíku­pólitíkus sem gaf þjóðar­bankana glæpa­mönnum og fór með Ís­land á hausinn, klúðraði gjald­eyris­vara­forðanum sem Seðla­banka­stjóri og gerðist svo leigu­penni al­þjóð­legra glæpa­manna. Þetta hefur allt verið frekar hvim­leitt, en slumpast fram að þessu. En að hann skuli nú opin­bera sig aftur og aftur sem hreinan og kláran ras­ista er sýnu erfiðara mál.“

Hall­grímur endar færslu sína á þessum orðum:

„Sættum við okkur við það? Getur starfs­fólkið á Mogganum starfað undir þessu? Erum við til í að taka við slíku inn á heimilin okkar á hverjum fimmtu­degi? Er þetta bara yfir höfuð í boði?“